Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Aþena veitir manni gífurlegan innblástur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Aþena veitir manni gífurlegan innblástur“

29.11.2021 - 10:33

Höfundar

Aþena hefur nokkurn veginn allt að bjóða myndlistarmönnum í leit að innblæstri og listvænlegu umhverfi. Sífellt fleiri hafa uppgötvað þetta og nú býr drjúgur hópur íslenskra listamanna í borginni.

Ört stækkandi mengi Íslendinga í Aþenu birtist með skýrum hætti á listahátíðinni Head 2 Head sem haldin var í byrjun nóvember. Þar komu saman grískir og íslenskir listamenn, fulltrúar listamannarekinna rýma beggja landa, og sýndu verk sín í samstarfi. Hátíðin verður svo haldin í Reykjavík haustið 2023.

Dolfallin

„Aþena veitir manni gífurlegan innblástur,“ segir Eva Ísleifsdóttir listamaður sem hefur búið í Aþenu frá árinu 2015. Upprunalega kom hún þangað í vinnustofudvöl. „Ég varð algjörlega dolfallin af borginni, matarmenningunni og veðrinu að sjálfsögðu,“ segir hún. Hún flutti búferlum til Aþenu ári seinna. Eva opnaði listamannarekna rýmið A-DASH ásamt hópi listamanna árið 2016, sem var einn af sýningarstöðum Head 2 head hátíðarinnar.

Stjórnmál, skoðanir og tilfinningar

Halldór Úlfarsson listamaður og hljóðhönnuður flutti til Aþenu árið 2017 og hefur þar unnið að tónlist, hljóðfærahönnun og list. Þetta sameinar Halldór í sérgerðu hljóðfæri, HallDórófóninum, sem vakið hefur athygli víða um heim og Hildur Guðnadóttir hefur meðal annars notast við. Aðspurður hvort sameiginlegur þráður liggi gegnum verk þeirra grísku listamanna sem hann hefur kynnst segir hann að vissir áhrifaþættir séu viðamiklir. „Pólitík og skoðanir og tilfinningar renna saman í eitt átakasamtal sem hættir aldrei. Mikið af þeim þjáningum sem hafa gengið yfir Grikkland undanfarið; efnahagshrunið sem þeir eru enn að vinna úr - við vorum nú oft sett samfætis hvað það varðaði en við náðum okkur, gríska hagkerfið ekki alveg- svo er það flóttamannastraumurinn sem skellur helst á þeim og eitt og annað. Þessi efnistök birtast mikið í list, myndlist og ritlist og því sem Grikkir setja frá sér.“

Hildigunnur Birgisdóttir tók þátt í H2H hátíðinni með verkum sem hún vann upp úr hverfisbúð sem hún heimsótti fyrst rafrænt og svo loks í eigin persónu. Að hennar mati afbyggir Aþena að mörgu leyti fyrirframgefnar hugmyndir og afstöðu. „Maður röltir um göturnar og verður fyrir áhrifum, það er bara full vinna. Endalausir staðir þar sem þú getur látið framleiða eitthvað eða gera eitthvað, þú getur einhvern veginn ekki notað neitt af þeim flokkunarkerfum sem þú hefur byggt upp frá barnæsku. Þetta er ein og að fara í eitthvað svona intens hugmynda-spa.“

Í þættinum er einnig rætt við listamenn sem dvelja í borginni í skemmri tíma; Almar Stein, Sigurð Ámundason, Söru Riel og Ragnar Kjartansson. Hér er hægt að hlýða á hann í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

Mæta með list á borðið í Pálínuboð í Aþenu