Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Árekstur við Arnarnesbrú og miklar tafir

29.11.2021 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Miklar umferðartafir eru nú á höfuðborgarsvæðinu eftir árekstur tveggja bíla á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesbrú, á milli Kópavogs og Garðabæjar. Minniháttar slys urðu á fólki að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Annar ökumaðurinn var þó fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar. Búast má við talsverðum töfum áfram, og vegfarendur beðnir um að fara varlega því úti er éljagangur og hálka á vegum.

Sendibíll og fólksbíll lentu í árekstrinum, þar sem annar ók aftan á hinn. Við höggið snerust bílarnir þannig að þeir loka alveg fyrir umferð um Hafnarfjarðarveg.

Að sögn bílstjóra sem sat í bíl sínum við Hamraborg í Kópavogi er bíll við bíl allt frá Kringlumýrarbrautinni og að slysstað. 

Báðir bílarnir eru óökufærir að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns hjá umferðardeild lögreglunnar. Hann segir að úr umferðarhnútnum eigi eftir að leysast upp úr klukkan sex, þar sem umferðarálagið minnkar yfirleitt um hálf sex. Skömmu eftir áreksturinn undir Arnarnesbrú barst lögreglunni tilkynning um árekstur á Hafnarfjarðarvegi við Hamraborg, og tafði það enn frekar umferðina. Þegar verst lét tók um hálftíma að komast frá Hlemmi að Kringlunni, og umferðin mjakaðist örhægt áfram suður eftir Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarvegi.

Ásgeir Þór segir jafnframt að þegar önnur akreinin er tekin svona úr umferð á stofnbrautum á þessum tíma verði alltaf tafir. „Það sem er að gerast líka er að einn og einn er ekki með réttan dekkjabúnað undir,“ segir Ásgeir Þór, og segir hann að þurfi ekki nema einn svoleiðis ökumann á hverri stofnbraut.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV