Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Túnfiskskvótinn eykst ár frá ári en enginn nýtir hann

28.11.2021 - 08:41
epa05698666 A wholesaler inspects frozen tuna before the first auction of the year at the Tsukiji fish market in Tokyo, Japan, 05 January 2017. A Bluefin tuna, which was caught in Oma, northern Japan, was sold for 74 million yen (631,000 US dollar), the
 Mynd: EPA Images
Um 20 til 30 japönsk túnfiskveiðiskip hafa að undanförnu verið við veiðar rétt utan íslensku efnahagslögsögunnar sem er ótvíræð vísbending að hægt væri að veiða hann í íslenskri lögsögu. Túnfiskskvóti Íslands hefur aukist ár frá ári en enginn nýtir hann.

Sum skipanna hafa fengið heimild til að koma inn fyrir lögsöguna vegna veðurs og sjólags þegar djúpar lægir hafa gengið yfir samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Japönsk skip hafa á undanförnum áratugum stundað þessar veiðar  í Norður-Atlantshafi en fara mis norðarlega. Fyrir 15-20 árum var algengt að skipin kæmu til hafnar í Reykjavík til að sækja vistir.

Kvótinn að mestu ónýttur

Útgefinn kvóti í ár er 225 tonn en hann er að mestu ónýttur. Útgerðarfélagið Vísir í Grindavík er eitt fárra íslenskra fyrirtækja sem gert hefur tilraun til túnfiskveiða og veiddi í þrjú ár.

„Það voru ekki allir sammála að við höfum haft fyrir kostnaði en við höfuðm gaman að þessu og fengum dýrmæta reynslu á þessum þremur árum“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson er framkvæmdastjóri Vísis.

„Jafn gaman og þetta var í fyrstu að þá fór glansinn af þessu þegar veðrin fóru að versna og veiðin að minnka, hann virtist ganga út aftur og kom ekki eins nálægt landi“ segir Pétur.

Þurfi sérhönnuð frystiskip

Við veiðarnar voru notuð ísfisksskip, aðeins aðlöguð túnfiskveiðum og fiskurinn sendur með flugi til Japans en þegar túnfiskurinn hafi fært sig mun fjær landi dugi ekkert annað en sérhönnuð frystiskip og ekkert slíkt sé til á Íslandi.

„Nei, það er ekkert þannig skip. Í fyrsta lagi þarf að frysta þetta á miklu lægra hitastig heldur en venjuleg fiskiskip þannig að þarf bæði mjög lágt hitastig og snögga frystingu“ segir Pétur. Hann segir frekari túnfiskveiðar ekki úr sögunni en kórónuveirufaraldurinn hafi seinkað öllum frekari áformum um veiðarnar.