Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Teitur, Teitur, haltu mér

Mynd: Alda / Alda

Teitur, Teitur, haltu mér

28.11.2021 - 15:01

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon er 33 ára gamall en hans þriðja breiðskífa sem kom út á dögunum heitir einmitt 33, og er 33 mínútna löng, og hvað eru margir þrír í því?

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Á þrjátíu og þremur heldur Teitur áfram að byggja sitt eigið hús úr naglaspítum íslenskrar popp-, þjóðlaga- og ljóðlistar sem hann málar og skreytir með alþjóðlegum straumum eins og reggí, bossanova, nýrómantík og afrískum ryþmum.

Teitur Magnússon er, eins og áður segir 33 ára, en hann vakti fyrst athygli með döbbreggí-sveitinni Ojba Rasta, auk þess að vera meðlimur í rappflokknum Fallegir menn, þar sem helsti frasinn hans var kenndur við Schengen, eins og svæðið. Ojba Rasta gaf út tvær prýðilegar plötur árin 2012 og 2013 sem köfuðu dýpra í flókinn bergmálshljóm döbb-listarinnar en til dæmis Hjálmar höfðu gert, og var líka eitt skemmtilegasta live-band landsins á sínu blómaskeiði. En árið 2014 söðlaði Teitur um og gaf út sína fyrstu sóló-skífu, sem hét einmitt eftir aldri hans þá; 27. Þar kom Teitur til dyranna á sloppnum sem hann var klæddur, og á umslaginu var innrömmuð andlitsmynd á máðum grænum bakgrunni, sem minnti mann á sólóskífu liðsmanns proggsveitar frá áttunda áratugnum. 

Í fyrsta lagi plötunnar sótti hann textann í ljóð Reykjavíkurskáldsins Benedikts Gröndals, yndislegan óð draumóramannsins til iðjuleysis, nefnt eftir hinu séríslenska orði Nenni; 

Ég nenni ekki alltaf að lesa
Ég nenni ekki alltaf að skrifa
Ég nenni ekki alltaf að mála
Hverju nenni ég þá?

Ég nenni alltaf að elska
Ég nenni alltaf að drekka
Ég nenni alltaf að dreymaEinhverju nenni ég þá

Þetta lag gaf fullkominn tón fyrir það sem á eftir kom. Það er einhver ofboðslega afslappaður andi sem er í senn rammíslenskur og opinn fyrir utanaðkomandi áhrifum. Tónlistin er kassagítarpopp í grunninn en krydduð með sítar, sílófónum eða exótísku skrauti þegar þú heldur að hljómurinn sé að verða of einhæfur. Þetta er hippalegt án þess að detta nokkurn tímann í metnaðarlaust trommuhringrúnk eða útvatnaða nýaldarspeki. Og sækir melódískt og textalega séð stíft í íslenska dægurlagahefð Stuðmanna, Mannakorna, Bjartmars, Megasar, Bubba og Spilverksins, en á 27 tekur Teitur meira að segja sína eigin útgáfu af Háflóði Bubba. Með hápunktum hennar eru svo Kamelgulur og Vinur vina minna, lag sem er samið um tíð eftirpartý á fyrrum dvalarstað Teits, þar sem allir viðstaddir voru í það minnsta vinir vina hans og sambýlismanna.

Á sinni annarri skífu, Orna, sem kom út 2018 hélt Teitur ennþá lengra ofan í íslenska þjóðlagahefð og sótti til dæmis í djúpa vasa þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar í laginu Hringaná. Þar voru líka enn framsæknari útsetningar, meðal annars frá Arnljóti fyrrum Ojba Rasta-félagans, í brassi, svuntuþeisurum og þverflautu í Hverra Manna ert þú. Svo naut hann liðsinnis frábærra söngkvenna, Mr. Sillu í Orna, og Steinunni Dj. Flugvélar og geimskips í lokalaginu Lífsspeki. Og nú á dögunum kom svo út þriðja breiðskífan þar sem Teitur sækir aftur í aldurinn, og titlar 33. Hún hefst á því glettnislega titlaða Líft á mars, augljósum virðingarvotti við epíska ballöðu kamelljónsins Davids Bowie, Life on Mars.

Sársaukann fær enginn flúið, snjóar yfir gleði sem er búin, Tíminn er mýkt, ruglingsleg dýpt, en við gætum kíkt, hvort það sé líft í mars, syngur Teitur í viðlaginu. Virkilega seventíslagt og grípandi lag sem kinkar kolli til bæði Bowies og Pauls Simon, með svellköldum synþahljómum og hressilegum Do Wop bakröddum og Dylan-legu munnhörpusólói í lokin. Mr. Silla syngur með honum í þriðja lagi plötunnar, einu af hennar sterkustu, þar sem vofa Bossa Novans vakir yfir taktinum í Háfjöllunum, og skartar líka líflegum brassútsetningum. Gamla þjóðlagið Dýravísur, Hani, krummi, hundur, svín, fær síðan einstaka meðhöndlun í útgáfu Teits þar sem súpa af indverskum hljóðfærum einkennir undirspilið.

Okkur er boðið upp á afrískættaða fjölryþma og margradda bakraddir í Afrólax og Kolbrúnu áður Teitur dembir sér, og okkur þarmeð, í hið stórskrítna en frábærlega titlaða Kysstu kistubotninn. Það byrjar eins og nett hallærislegt og úrsérgengið heví metal áður en mjúk nýrómantísk hljómborð hellast yfir, svo áður en þú veist af er Teitur farinn að syngja í gegnum kraftwerk-legan róbóta-effekt og síðan eitthvað sem nálgast nútímalegt autotune. Lagið er hlægilegur ómöguleiki og fríkaður óskapnaður sem samt gengur næstum því upp, allavega nógu nálægt því til að tilraunin sé allrar athygli verð.

Í laginu Skrýtið má heyra Velvet Underground-legt gítarhjakk með fídbakki, saxófónum og allra handa töffaraskap sem Transformerinn hans Lou Reed gæti verið stoltur af. Akkúrat núna þegar skammdegisþunglyndið, covid-klikkunin og jólakvíðinn hellast yfir okkur allt í einu er Desembersíðdegisblús svo  fullkomið lag, snjórinn grætur við fótinn og flýr inn í skóinn æjæjæjæ, hví er allt svo dapurt í dag, desembersíðdegisblús. Frábært jólalag fyrir fólk sem hatar jólin. Lokalagið Spegillinn er svo undurfalleg ástarballaða narsísistans til sjálfs sín: Farðu úr speglinum mínum, svo ég geti séð. Ég elska bara þig og þú mátt vera með. Nema þegar ég verð upptekinn af mér. Farðu úr speglinum mínum, svo ég geti séð. Aftur og aftur eins og mantra.

Teitur Magnússon býr til tónlist sem ég á alla jafna afskaplega erfitt með, því ég er svört og leiðinleg sál sem hatar flest sem öðrum finnst fallegt. Ég þoli ekki svokallaða singer/songwriters, eða söngvaskáld. Ég fæ grænar bólur af hvítum mönnum með kassagítara. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af Spilverkinu, Bubba, Bjartmari og öðrum máttarstólpum íslenskrar poppmenningar. Tónlistin hans Teits er ekki beinlínis töff eða edgy heldur meira þægileg, viðkunnanleg og grípandi, eitthvað sem fimmtug frænka mín gæti elskað og Rás 2 setur í raðspilun, eitthvað sem mótþróaþrjóskuraskaði ég fer yfirleitt hart í baklás á móti. En Teitur nær mér, hann er kósí án þess að vera banal, og getur verið sniðugur og hugljúfur á kjarnyrtri íslensku, án þess að detta í hóhóhó slær sér á lær baggalútselskandi landsbyggðarfrændi þinn úr fermingarveislunni.

Á þrjátíu og þremur heldur Teitur áfram kafsundi sínu í djúpu laug íslenskrar dægurtónlistar, pissar í hana og gerir hana þarmeð að sinni eigin. Og þar er svo sannarlega gott að svamla.

Tengdar fréttir

Tónlist

Teitur Magnússon - Líft í mars?

Tónlist

Teitur Magnússon á skriftastóli

Tónlist

Teitur og Æðisgengið í Vikunni

Tónlist

Ormurinn búinn að bíta í skottið á sér