Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hefja eftirlitsflug yfir Ermarsundi

28.11.2021 - 20:05
Flugvél evrópska landamæraeftirlitsins, Frontex, verður með reglulegt eftirlitsflug yfir Ermarsundi frá miðri viku til að koma í veg fyrir mansal með flóttafólk. Þetta var ein niðurstaða fundar um flóttamannavandann við sundið sem haldinn var í Calais í dag.

Hann sátu ráðherrar málaflokksins frá Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu og Hollandi, auk innanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Breska innanríkisráðherranum hafði verið boðið á fundinn en það boð síðan afturkallað eftir að forsætisráðherra Breta sendi Frökkum eigin tillögur um lausnir. Á fundinum var samþykkt að gera allt til að uppræta smygl á flóttamönnum og leysa vandann þannig.