Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fékk ráðherrabréf til að brugga ofan í þjóðskáldið

Mynd: Kiljan / RÚV

Fékk ráðherrabréf til að brugga ofan í þjóðskáldið

28.11.2021 - 08:00

Höfundar

Það er ekki oft núorðið sem maður hittir fólk sem hafði persónuleg kynni af gömlu þjóðskáldunum. Þórarinn Snorrason, bóndi á Vogsósum í Selvogi þekkti Einar Benediktsson og konu hans Hlín Johnson árin sem þau bjuggu í Herdísarvík.

Þórarinn Snorrason er einn fárra manna sem á minningar um þjóðskáldið Einar Benediktsson og eiginkonu hans, Hlín Johnson. Þórarinn er á meðal fólks sem kemur við sögu í bókinni Guðni á ferð og flugi, þar sem Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra, rekur ferðalag sitt um hinar dreifðu byggðir Íslands.

Foreldrar Þórarins voru velgjörðarmenn Hlínar og Einars. „Ég man eftir honum sko, hann kemur í Selvoginn 1932, með Hlín, sem eiginlega bjargaði honum úr sollinum,“ segir Þórarinn í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni á RÚV.

Þurfti að bera þunga líkkistu um langan veg

Einar lést snemma árs 1940 og var það víst mikið brambolt að ná honum yfir Selvogsheiðina. Ekki var bílfært og þurfti að smala saman hópi manna til að bera kistuna til Herdísarvíkur og aftur til baka, segir Þórarinn.

„Þetta var mjög þung eikarkista sem hafði verið smíðuð einhverjum árum áður en hann dó. Þetta var mjög erfitt. Þetta er svona 14 kílómetra vegalengd, fram og til baka.“

Töldu ekki ráðlegt að taka af honum vínið

Einar hafði verið í mikilli óreglu í Reykjavík og orðinn heilsutæpur þegar þau fluttu til Herdísarvíkur. „Hlín eiginlega bjargar honum úr strætinu má segja.“

En hún skammtaði Einari þó vín, segir Þórarinn, samkvæmt læknisráði. „Hún leitaði til lækna áður en hún flutti að Herdísarvík, um hvað hún ætti að gera í þessum vínmálum, því ekki gat hún hlaupið út í ríkið í Herdísarvík. Hún fékk ráðherrabréf upp á það að hún fékk leyfi til að brugga í hann. Það var maður hérna neðan úr Selvogi sem hét Helgi Guðnason hann var dálítið í þessu að brugga fyrir hana og sjóða landa. Hún skammtaði honum alltaf vín. Þeir töldu læknarnir að það væri ekki ráðlegt að taka af honum vínið.“

Egill Helgason ræddi við Þórarin Snorrason í Kiljunni á RÚV.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bað guð á hverju kvöldi að láta ekki móður sína deyja

Bókmenntir

Kynósa þjóð gerði rómantík úr viðbjóðslegum morðum

Bókmenntir

Meinlaus list valdi mannkyni ómældum skaða

Bókmenntir

„Ég einsetti mér að hlífa engum“