Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir þjóðina búna að bíða lengi eftir myndun ríkisstjórnar og það vanti skýra sýn og stefnu til að taka þjóðina inn í framtíðina. „Þess vegna verður að segja að það eru ákveðin vonbrigði að sjá að þetta eru mest allt umbúðir. Þetta er skýrasta dæmið um umbúðastjórnmál sem við erum að sjá í dag en minna um innihald,“ segir Þorgerður Katrín.

Falleg orð soðin í innihaldslausan graut
Logi Einarsson segir sorglegt að sjá að hvorki sé minnst á óréttlæti né ójöfnuð í stjórnarsáttmálanum. Honum þykir áhugavert að sjá að réttlæting Vinstri grænna fyrir því að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fyrir fjórum árum, það eru heilbrigðismálin og loftslagsmálin, eru ekki lengur í höndum þeirra. „Þau hverfa þaðan inn í ráðuneyti sjávar og landbúnaðar þar sem þau eru meira og minna sammála íhaldsflokkunum, þannig að þetta hlýtur að veikja stöðu þeirra.“
Það vekur helst athygli Ingu Sæland að hvergi í stjórnarsáttmálanum komi hugtakið fátækt fyrir. „Það kemur hvergi fram raunverulega hvernig á að komast til móts við þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu,“ segir Inga. Hún er sammála Loga um að það hafi komið henni á óvart að Vinstri gærn láti sér duga forsætisráðuneytið á meðan þeir yfirgáfu ráðuneyti sinna stærstu áherslumála.
Innihaldslaus málamiðlun
Halldóra Mogensen segir nýja stjórnarsáttmálann viðbúna froðu. „Þegar flokkar ná ekki saman í grundvallar málaflokkum, þá tekur bara dálítinn tíma að kokka upp nógu innihaldslausa málamiðlun,“ segir hún og bætir því við að sáttmálinn boði algjöra uppgjöf í stærstu málunum sem flokkarnir náðu ekki saman um á síðasta kjörtímabili. „Mér sýnist þetta bara vera uppgjöf á því að ná saman um einhver stór mál þannig að ég átta mig ekkert á því hvað þessi ríkisstjórn á að snúast um og maður sér það ekki á þessum stjórnarsáttmála. Þetta eru bara falleg orð sem eru soðin saman í einhvern innihaldslausan graut.“