Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tvö ómíkron tilfelli staðfest í Bretlandi

27.11.2021 - 14:24
epa08654354 Travellers wear mask as they enter an underground train station along the busy shopping area of Oxford Street in London, Britain, 08 September 2020. A rise in coronavirus cases is causing covert about a potential second wave in Britain. The UK is now seeing four times as many cases on average as it was in mid July according to media reports. British Health Secretary Matt Hancock has urged young people to stick to physical distancing rules, due to the the rise in the number of coronavirus cases.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA
Tvö tilfelli ómíkron afbrigðis kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 hafa greinst í Bretlandi. Þetta staðfesti Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, á Twitter í dag. Hann segir einstaklingana sem greindust báða vera í einangrun. Tengsl eru á milli einstaklinganna að sögn ráðherrans og eru þeir nýkomnir úr ferðalagi frá sunnanverðri Afríku.

Annar hinna smituðu er í Nottingham og hinn í Chelmsford. Í forvarnarskyni hafa bresk heilbrigðisyfirvöld ákveðið að fara í sérstaka skimun í borgunum, og öll jákvæð sýni verði raðgreind. 

Javid greinir jafnframt frá því að Malaví, Mósambík, Sambíu og Angóla hafi verið bætt á rauðan lista Breta varðandi ferðalög. Það tekur gildi klukkan fjögur í nótt, aðfaranótt sunnudags. Þeir sem hafa komið þaðan síðustu tíu daga verða að fara í einangrun og PCR-sýnatöku. Þá hvetur hann fólk til þess að fá þriðju bólusetningarsprautuna.

Ómíkron afbrigðið greindist fyrst í Suður-Afríku. Síðdegis í gær settu aðildarríki Evrópusambandsins ferðabann til sjö Afríkuríkja vegna afbrigðisins. Það eru suður-Afríka, Simbabve, Botsvana, Esvatíní, Lesótó, Mósambík og Namibía. Fyrsta ómíkron afbrigðið greindist í Belgíu í gær. Yfir 60 farþegar sem komu í tveimur flugvélum til Amsterdam í gær frá Suður-Afríku greindust með COVID-19. Ekki er komin niðurstaða úr raðgreiningum.