
Þungar refsingar fyrir að ógna heilbrigðisstarfsfólki
Tíu ára fangelsi fyrir að hóta heilbrigðisstarfsfólki
Margoft hefur verið efnt til harðra og óvæginna mótmæla við sjúkrahús og heilsugæslur þar sem bólusetning við COVID-19 fer fram. Í frumvarpi sem dómsmálaráðherrann David Lametti kynnti á föstudag er gert ráð fyrir allt að tíu ára fangelsisdómi yfir hverjum þeim, sem beitir heilbrigðisstarfsfólk hótunum eða hindrar það í að sinna starfi sínu.
Lametti sagði mótmælin gegn bólusetningu og sóttvarnaaðgerðum í yfirstandandi heimsfaraldri ekki hafa farið framhjá neinum. Síðast í þessari viku hafi komið til slíkra mótmæla sagði ráðherrann, sem talaði um „COVID-19-afneitara sem reyna að koma í veg fyrir að börn fái bóluefni sem geta bjargað lífi þeirra.“
Ráðherrann sagði það hvort tveggja „fyrirlitlegt og óásættanlegt“ að „hræða, angra, hindra eða hóta“ þeim sem vinna við það þjóðþrifaverk sem bólusetning er.
Vaxandi hatur í garð lækna og heilbrigðisstarfsfólks
Bólusetning barna á aldrinum fimm til ellefu ára hófst í Kanada á miðvikudag, eftir að heilbrigðisyfirvöld gáfu grænt ljós á notkum bóluefnis Pfizer/Biontech fyrir þann aldurshóp. Formaður kanadísku læknasamtakanna, Katherine Smart, segir að strax á síðasta ári hafi farið að bera á vaxandi hatri og ofbeldi gegn læknum og öðru heilbigðisstarfsfólki að störfum.