Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þórólfur: Veiran er algjörlega óútreiknanleg

27.11.2021 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
„Hún er algjörlega óútreiknanleg,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali við Önnu Lilju Þórisdóttur í dag. Stóru málin tvö fyrir framtíðina segir Þórólfur vera hvort við fáum ný afbrigði og hvernig bóluefnin virka gegn þeim. Nýjar tillögur verða lagðar fram um helgina varðandi aðgerðir á landamærunum vegna nýja afbrigðisins omikron.

„Við erum alltaf að læra aðeins nýtt,“ segir Þórólfur. Sóttvarnayfirvöld voru í stífum fundarhöldum með yfirvöldum í Evrópu sem komu með þau tilmæli seint í gær að hvetja íbúa til að ferðast ekki til tiltekinna ríkja í sunnanverðri Afríku að nauðsynjalausu. „Mér sýnist á öllu að Evrópusambandið vilji grípa til mjög harðra aðgerða á meðan er verið að kanna það hversu alvarlegt þetta nýja afbrigði er,“ segir Þórólfur. Hann sagði virðast sem omikron afbrigðið breiðist hratt út og smithæfni þess sé jafnvel meiri en af delta afbrigðinu. Eftir fundarhöld með ESB telur hann fulla ástæðu til að taka þátt í aðgerðum ESB. „Við erum að vinna að nýjum reglum á landamærunum varðandi próf hér frá fólki sem er að koma frá þessum löndum og öðrum aðgerðum“.

Hertar aðgerðir á landamærunum

Minnisblað verður lagt á borð heilbrigðisráðherra um helgina, að öllum líkindum í dag. Hvenær tillögur sem settar verða fram á minnisblaðinu taka gildi segir Þórólfur óvíst. Breytingar á landamærunum krefjist ákveðins undirbúnings, en nauðsynlegt sé að vinna hratt í þessum efnum.

Hvað varðar faraldurinn hér á landi segir Þórólfur hann vera að mjakast niður á við. Omikron afbrigðið hefur ekki greinst hér á landi, en hann segir það vera stóra málið eins og staðan er í dag. „Við eigum eftir að fá miklu betri upplýsingar um þetta nýja afbrigði. Er það hættulegra? Hversu smitnæmara er það? Breiðist það hraðar út? Virka bóluefnin gegn því? Við fáum líklega ekki niðurstöður úr því fyrr en eftir tvær vikur,“ segir Þórólfur. „Ég hef alltaf sagt að við þurfum að vera viðbúin ýmsum nýjum uppákomum, á meðan COVID er í heiminum öllum þá er COVID ekki lokið, ekki einu sinni hér á Íslandi. Ég held að það sé að sanna sig núna með þessu nýja afbrigði og viðbrögðum við því á heimsvísu“.

Ekki búið að tímasetja bólusetningar barna

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um bólusetningar barna hér á landi. Lyfjastofnun Evrópu heimilaði í vikunni bóluefni til barna á aldrinum 5-11 ára. Eftir á að halda fundi með þeim sem sjá um bólusetningar hér á landi til þess að ákveða hvernig sú bólusetning fer fram. Bóluefni fyrir börn koma hingað til lands í lok desember. Hvort fullorðinsbóluefni í minna mæli verði notuð þangað til verður bara að koma í ljós segir Þórólfur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV