Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherrum fjölgar og margir hafa vistaskipti

27.11.2021 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar aðrir en formenn flokkanna hafa vistaskipti í nýrri ríkisstjórn. Ráðherrum í ríkisstjórninni fjölgar væntanlega um einn og kemur hann úr röðum Framsóknarmanna. Ný ríkisstjórn og nýr stjórnarsáttmáli verða kynnt á morgun.

Það má segja að boltinn hafi farið strax af stað í fyrrakvöld þegar Alþingi staðfesti 63 kjörbréf en það var það sem formenn stjórnarflokkanna höfðu beðið eftir til að geta kynnt nýja ríkisstjórn. Núna eftir hádegi halda stjórnarflokkarnir fundi í flokksstofnunum eins og það er kallað þar sem stjórnarsáttmálinn og stjórnarsamstarfið er borið undir flokksfólk.

Gert er ráð fyrir að það verði samþykkt þannig að formennirnir halda sennilega fund með þingflokkum í fyrramálið til að kynna hverjir muni skipa ríkisstjórnina, síðan verður blaðamannafundur þar sem stjórnarsáttmálinn verður kynntur og að því loknu eru ríkisráðsfundir á Bessastöðum, fyrst með fráfarandi ríkisstjórn þar sem Kristján Þór Júlíusson kveður og svo með nýrri ríkisstjórn.

Lítið vitað um nýjan stjórnarsáttmála

Það er lítið vitað um innihald nýja stjórnarsáttmálans, en formennirnir hafa allavega haft góðan tíma til að vinna hann. Í síðasta sáttmála sögðust þau freista þess að slá nýjan tón, efla Alþingi og leggja áherslu á umhverfi og loftslag. Talið er fullvíst að hálendisþjóðgarður sé í sáttmálanum en sennilega mjög breyttur, rammaáætlun kemur fram og eðliega verður áhersla á heilbrigðismál og efnahagsmál. En fæstir gera ráð fyrir róttækum sáttmála.

Líklegt að formenn haldi sínum ráðuneytum

Talið er fullvíst að formennirnir verði áfram í sínum ráðuneytum og að ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar bæti við sig fleiri málaflokkum. Síðan er viðbúið að einhvers konar hringekja fari af stað þar sem flestir ráðherranna skipti um ráðuneyti. Jafnvel að VG haldi umhverfisráðuneytinu en þaðan fari einhver verkefni, heilbrigðisráðuneytið fari til Sjálfstæðisflokks, og menntamálaráðuneytið til Vinstri grænna.

Ný í ríkisstjórn verða sennilega Willum Þór Þórsson Framsókn og Guðrún Hafsteinsdóttir Sjálfstæðisflokki. Þá er gert ráð fyrir að Birgir Ármannsson verði forseti Alþingis.

En þetta eru auðvitað getgátur en verður endanlega komið allt í ljós á morgun.