Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fleiri ríki loka á ferðalanga frá sunnanverðri Afríku

A passenger walks through International Arrivals, at London's Heathrow Airport, Friday, Nov. 26, 2021. The U.K. announced that it was banning flights from South Africa and five other southern African countries effective at noon on Friday, and that anyone who had recently arrived from those countries would be asked to take a coronavirus test. (AP Photo/Alberto Pezzali)
 Mynd: AP
Bandaríkin, Kanada, Brasilía, Gvatemala og Sádi Arabía bættust í gær í hóp þeirra ríkja sem lokað hafa fyrir komu ferðalanga frá nokkrum löndum í sunnanverðri Afríku vegna nýs og bráðsmitandi afbrigðis kórónaveirunnar sem þar hefur stungið upp kollinum. Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar telja afbrigðið, sem þeir nefna Omicron, enn meira smitandi en Delta-afbrigðið, sem keyrt hefur þriðju og fjórðu bylgju COVID-19 heimsfaraldursins áfram.

Evrópusambandið, Bretland og fleiri Evrópuríki hafa þegar bannað komu fólks frá Suður-Afríku, Botsvana, Namibíu, Lesótó, Sambíu, Simbabve, Esvatíni, Malaví og Mósambík.

Fleiri ríki hafa ýmist þegar bannað komu fólks frá þessum löndum eða boðað slíkar aðgerðir, þar á meðal Jórdanía, Filippseyjar, Marokkó og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Heilbrigðisyfirvöld í Suður Afríku gagnrýna þessi viðbrögð og segja þau grimmdarleg og mun harkalegri en efni standi til.

Tíðindin af þessu nýja afbrigði hafa áhrif víðar en í heilbrigðiskerfinu og ferðaþjónustunni því verðbréf lækkuðu um hálft þriðja prósent í kauphöllum Tókíó og New York og nær þrjú prósent í Evrópu.