Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Enn áhyggjur af afdrifum Peng Shuai

epa01773346 Shui Peng of China returns the ball to Agniesszka Radwanska of Poland during their second round match for the Wimbledon Championships at the All England Lawn Tennis Club, in London, Britain, 25 June 2009.  EPA/ANDY RAIN EDITORIAL USE ONLY/NO COMMERCIAL SALES
 Mynd: EPA

Enn áhyggjur af afdrifum Peng Shuai

27.11.2021 - 13:44
Formaður tennissambands kvenna hefur enn áhyggjur af afdrifum tennisstjörnunnar Peng Shuai, þrátt fyrir myndskeið sem eiga að gefa til kynna að hún sé heil á húfi. Svör við tilraunum til að ná sambandi við hana hafi greinilega ekki komið frá henni.

 

Ekkert heyrðist frá Peng Shuai í meira en tvær vikur eftir að hún sakaði fyrrverandi varaforseta landsins, Zhang Gaoli, um að hafa neytt sig í kynlíf. Ásökunina birti hún á kínverskum samfélagsmiðli 2. nóvember en færslunni var síðan eytt.

21. nóvember sagði Alþjóða ólympíunefndin í yfirlýsingu að Thomas Bach formaður hennar hefði rætt við Peng í 30 mínútur í myndsímtali ásamt enbættismönnum úr kínversku íþróttahreyfingunni. Þar stóð að Peng virtist við ágæta heilsu. Sama dag birti kínverska ríkissjónvarpsstöðin myndir af henni á tenniskeppni sagði að þær myndir hefðu verið teknar samdægurs. 

Tennissamband kvenna er þó ekki sannfært. Í yfirlýsingu frá formanni þess, Steve Simon, segir að hann hafi tvisvar reynt að senda Peng tölvupóst og svörin hafi greinilega verið undir áhrifum einhverra annarra. Hann hafi miklar áhyggjur af því að Peng sé ekki laus við ritskoðun eða þvingun. Hann vilji ekki reyna þennan samskiptamáta aftur fyrr en hann hafi fengið fullvissu um að svörin séu ekki ritskoðuð. 

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch, Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og Bretland hafa öll krafist þess að sannanir séu lagðar fram um hvar Peng sé niðurkomin og að hún sé heil á húfi. 

Kínversk stjórnvöld hafa, að frátöldum myndunum, ekki gefið neitt út annað en að ásakanirnar séu rangar. Þrýstingurinn eykst þó á þá, ekki síst í ljósi þess að vetrarólympíuleikarnir hefjast í Peking í febrúar.

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Peng sást óvænt á tennismóti í Peking í morgun