Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Safna fyrir betri Vatnsnesvegi

Mynd: Valgeir Örn Ragnarsson / Aðsend mynd
Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur sett af stað hópfjármögnun vegna framkvæmda við Vatnsnesveg. Sveitarstjóri segir óásættanlegt að vegurinn sé ekki á samgönguáætlun fyrr en á árunum 2030 til 2034 og því hafi verið ákveðið að fara þessa leið.

Vonast til að söfnun flýti framkvæmdum

Vatnsnesvegur hefur ítrekað verið til umfjöllunar síðustu ár. Þetta er holóttur malarvegur í slæmu ástandi og þar verða reglulega umferðarslys. 
Sveitarstjórn Húnaþings segir seinagang vera hjá stjórnvöldum með að taka veginn í gegn og ákvað að hefja söfnun á samskotasíðunni Karolina Fund. 

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra segir að sveitarfélagið hafi vilja leggja sitt af mörkum til að flýta framkvæmdum við veginn.  „Þetta var möguleiki sem við sáum í stöðunni, að fara af stað með hópfjármögnun og fá landsmenn og aðra sem unna Vatnsnesinu að aðstoða okkur við það að safna fyrir því að við getum byrjað á framkvæmdum fyrr en ætlað er á samgönguáætlun.“
 

Munu afhenda afrakstur söfnunarinnar ráðuneytinu

Vegurinn er 70 kílómetrar og er áætlað að það kosti 3,5 milljarða að byggja hann upp og malbika. Sveitarfélagið stefnir að því að safna 100 milljónum með samskotum og afhenda þær samgönguráðuneytinu.

Ragnheiður segir að farið verði fram á að söfnunarféð verði eyrnamerkt því að hönnun vegarins farið strax af stað. Þannig verði tilbúin hönnun og hægt að færa framkvæmdir fyrr á samgönguáætlun.

Vegurinn í raun ónýtur

Ragnheiður segir veginn í raun ónýtan og sé hann sérstaklega slæmur núna því ekki hafi náðst að hefla hann áður en frost kom í jörðu. Mörg skólabörn þurfa að ferðast um veginn daglega.

„Lengsta leiðin hjá þeim núna í haust var 2 tímar og 20 mínútur, leið sem þau eru vanalega klukkutíma að fara og tæplega það ef vegurinn væri í þokkalegu standi. Þessir krakkar sem eru að byrja í skóla í dag þau munu aldrei keyra á öðrum vegi en ónýtum Vatnsnesvegi ef hann verður ekki færður framar á áætlun samgönguráðuneytisins,“ segir Ragnheiður.