Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Nýja veiruafbrigðið er komið til Evrópu

26.11.2021 - 16:32
epa09598515 People wearing face masks walk at the European district in the morning as a fourth wave of Covid hits, in Brussels, Belgium, 23 November 2021. Last week Belgian Government decided to make teleworking mandatory for four days a week as Covid-19 hits Belgium with a fourth wave.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
Belgar eru meðal þeirra þjóða í Vestur-Evrópu sem hafa farið illa út úr fjórðu bylgju COVID-19. Mynd: EPA-EFE
Nýtt afbrigði kórónuveirunnar, sem heilbrigðisyfirvöld í Suður-Afríku tilkynntu um í gær, hefur skotið upp kollinum í Belgíu, fyrstu Evrópulanda. Tilkynnt var í dag um hertar sóttvarnarreglur þar í landi vegna fjölgunar veirusmita að undanförnu.

Belgískur veirufræðingur, Marc Van Ranst að nafni, tilkynnti á Twitter í dag að hann hefði látið heilbrigðisyfirvöld vita af því að afbrigðið hefði greinst í óbólusettum ferðamanni, sem kom frá Egyptalandi 11. nóvember. Frank Vandenbroucke heilbrigðisráðherra staðfesti það síðan á fundi með fréttamönnum í Brussel eftir hádegi. Að hans sögn greindist ferðamaðurinn smitaður á mánudaginn var. Vandenbroucke sagði að ekki væri enn vitað með fullvissu hvort afbrigðið væri mjög hættulegt, en í öryggisskyni hefðu Evrópuríki stöðvað flugferðir frá löndunum syðst í Afríku.

Sóttvarnir hertar í Belgíu

Þessi ótíðindi bætast við önnur í Belgíu, þar sem dagleg smittilfelli vegna delta-afbrigðisins hafa verið um það bil tuttugu þúsund að undanförnu. Því hefur verið ákveðið að loka diskótekum og öðrum skemmtistöðum frá og með morgundeginum næstu þrjár vikur. Einkasamkvæmi verða einnig bönnuð. Börum og veitingahúsum á að loka klukkan ellefu að kvöldi og sömuleiðis söluturnum sem alla jafna eru opnir allan sólarhringinn.

Stigið á neyðarhemilinn

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mælti með því síðdegis að stigið yrði á neyðarhemilinn, eins og það var orðað, komið í veg fyrir ferðir fólks til Evrópu frá löndum í suðurhluta Afríku. Öllum flugferðum frá þessum löndum verði aflýst að sinni til að tefja fyrir útbreiðslu nýja veiruafbrigðisins.

Danir grípa til aðgerða

Danir eru meðal þeirra þjóða sem hafa gripið til aðgerða vegna nýja veiruafbrigðisins. Öllum landsmönnum er ráðið frá því að ferðast til Suður-Afríku og sex annarra landa syðst í álfunni nema brýna nauðsyn beri til. Á sama hátt fá þeir einir að koma til Danmerkur frá löndunum sjö sem eru í mikilvægum erindagjörðum. Jafnframt skora heilbrigðisyfirvöld á alla sem hafa komið til Danmerkur frá Afríkulöndunum sjö síðastliðna tíu daga að fara í smitgreiningu.