Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Miklar óeirðir skekja Salómónseyjar

(FILE) A file picture dated 5 April 2007 shows an aerial view of islands in the Solomon Islands Western Province.  EPA/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA
Miklar óeirðir hafa skekið Salómónseyjar í Suður-Kyrrahafi undanfarna þrjá daga. Þúsundir vopnaðra óeirðaseggja hafa farið um götur í höfuðborginni Honiara og kveikt í húsum og vöruskemmum.

Mótmælin sem hófust á miðvikudag beinast að ríkisstjórn Manasseh Sogavare forsætisráðherra landsins. Nágrannaríkin Ástralía og Papúa Nýja-Gínea hafa sent sveitir til aðstoðar.

Karen Andrews innanríkisráðherra Ástralíu segir verkefni þeirra um 100 her- og lögreglumanna sem sendir voru til eyjanna vera að koma á lögum og reglu að nýju. Hún segir ástandið viðkvæmt og að mótmæli hafi heldur færst í aukana. Ekki standi til að hafa afskipti af stjórnmálum landsins. 

Forsætisráðherrann fullyrðir að erlend öfl standi að baki aðgerðum mótmælenda vegna þeirrar ákvörðunar hans að láta af diplómatískum stuðningi við Taívan og tryggja með því sambandið við Kína.

Sogavare kveðst í samtali við AFP-fréttaveituna þó ekki vilja nefna nein nöfn. Aðrir kenna fjárhagsvanda vegna kórónuveirufaraldursins um auk langvinnrar togstreitu íbúa fjölmennustu eyjarinnar Malaita og Guadalcanal, miðstöð stjórnsýslu í landinu.

Yfirvöld á Malaita mótmæltu ákvörðun forsætisráðherrans gagnvart Taívan harðlega og héldu áfram tengslum við þarlend stjórnvöld. Þau fá því fjárhagsstuðning frá Bandaríkjunum og Taívan. 

Lífið á Salómónseyjum, heimkynna um 700 þúsund manna, hefur um áratugaskeið einkennst af pólítískri spennu og togstreitu milli þjóðfélagshópa. Eyjarnar fengu heimastjórn árið 1976 en eru hluti breska samveldisins.

Þúsundir mótmælenda þustu að þinghúsinu í Honiara á miðvikudag, kröfðust afsagnar Sogaveres og kveiktu í hliðarbyggingu. Þegar leið á daginn líktist borgin orrustuvelli ef marka má frásagnir sjónarvotta.

Þykkan reyk lagði yfir hana frá brennandi byggingum meðan þjófar fóru ránshendi um verslanir og vöruhús. 

Frá Peking barst ákall um tryggingu fyrir öryggi kínverskra íbúa Salómónseyja og fyrirtækja þeirra í landinu. Ástralir búast við að sveitir þeirra verði að störfum í nokkrar vikur en ástralskar friðargæslusveitir voru að störfum í landinu á árunum 2003 til 2017. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV