Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Megas sakaður um kynferðisbrot

Mynd með færslu
 Mynd: - - RÚV
Tónlistarmaðurinn og skáldið Megas hefur verið sakaður um kynferðisbrot gegn ungri konu árið 2004. Stundin greinir frá í viðtali við meintan brotaþola, Bergþóru Einarsdóttir, þar sem hún lýsir atvikinu og tilraun hennar til þess að kæra Megas til lögreglu. Mál hennar var látið niður falla þar sem þótti skorta sannanir um ásetning.

Bergþóra var tvítug þegar atvikið átti sér stað og var stödd ásamt Megasi á heimili Gunnars Arnar Jónssonar, sem var yfirmaður hennar á veitingastað. Bergþóra lýsir í viðtali við blaðamann Stundarinnar að hún og Megas hafi átt í vinasambandi og hún hafi borið mikla virðingu fyrir honum sem listamanni. Það samband hafi aldrei verið af kynferðislegum toga. Hún segir mennina fyrrnefndu hafa gefið sér lyf og svo í kjölfarið hafi þeir báðir misnotað hana.

„Var kölluð Litla ljót“

Bergþóra segist hafa veitt texta Megasar um Litlu ljót sérstaka athygli, þar sem Megas hafi oft kallað hana því viðurnefni.

Hún segir hann sláandi líkan atburðarásinni þetta kvöld. Meðal annars syngur Megas um fleiðraðan fót og Bergþóra segir hafa beðið hann um plástur vegna hælsæris, skömmu áður en brotið var á henni. Í textanum er lýst hvernig eigi að láta „litlu ljót“ líða betur með kynferðislegu athæfi.

Bergþóra segist hafa óttast afleiðingar þess að stíga fram og segja sögu sína. Þá segist hún undir það búin að margir muni ekki trúa frásögn hennar. Nú hafi hún loksins unnið úr áfallinu og hafi því talið tímabært að segja sögu sína.

Blaðamaður Stundarinnar segir hvorki Megas né Gunnar hafa gefið kost á viðtali við vinnslu fréttarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það sem fram kemur í frétt Stundarinnar. 

Ólöf Rún Erlendsdóttir