Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lífleg viðskipti á svörtum föstudegi vestra

26.11.2021 - 17:44
Black Friday shoppers wearing face masks leave a Walmart store with a TV in Pic Rivera Calif., Friday, Nov. 26, 2021.  Retailers are expected to usher in the unofficial start to the holiday shopping season today with bigger crowds than last year in a closer step toward normalcy. But the fallout from the pandemic continues to weigh on businesses and shoppers’ minds. (AP Photo/Ringo H.W. Chiu)
 Mynd: AP
Jólaverslunin í Bandaríkjunum hófst formlega í dag, á svörtum föstudegi, sem svo er nefndur. Samtök verslunareigenda reikna með að viðskiptin verði töluvert meiri í ár en í aðdraganda jóla í fyrra, en þá setti farsóttin strik í reikninginn.

Samkvæmt hefð hafa verslanir vestra auglýst ómótstæðileg tilboð síðustu daga til að laða að viðskiptavini með tækjalosta og aðra sem hafa beðið þess með óþreyju að fá innkaupasælunni svalað.

Viðskiptin hófust víðast hvar snemma morguns eða jafnvel síðla nætur og á fréttamyndum dagsins má sjá fólk með innkaupavagna af stærri gerðinni, troðfulla sjónvarpsviðtækjum, leikföngum, leikjatölvum, hrærivélum, fatnaði og allra handanna öðrum varningi.

Svarti föstudagurinn svonefndi er þó ekki lengur jafn spennandi og hann var á árum áður. Margir kjósa að kaupa frekar inn á netinu en að fara í verslunarleiðangur. Frá því í byrjun mánaðarins hafa bandarískir neytendur keypt vörur fyrir 76 milljarða dollara, ríflega tuttugu prósentum meira en í nóvember í fyrra.

Þessi aukning glæðir vonir kaupmanna um að viðskiptin í heild verði enn meiri í aðdraganda jóla en í fyrra, en þá setti farsóttin svip sinn á veltuna með atvinnuleysi og útgöngubanni. Landssamtök verslunareigenda í Bandaríkjunum gera ráð fyrir að aukningin verði tíu og hálft prósent. Rætist það nema þau í heild 859 milljörðum dollara.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV