Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kunnuglegir kanilakrar

Bony Man er söngvari og lagahöfundur sem gaf út sína fyrstu plötu á dögunum. Maðurinn heitir Guðlaugur Jón Árnason.
 Mynd: Lilja Jón - Lilja Jóns

Kunnuglegir kanilakrar

26.11.2021 - 10:20

Höfundar

Cinnamon Fields er fyrsta sólóplata Bony Man sem er listamannsnafn Guðlaugs Jóns Árnasonar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Plata þessi er unnin í nánu samstarfi við Arnar Guðjónsson, upptökustjórnanda og tónlistarmann með meiru. Guðlaugur Jón er óþekkt stærð, enn, í íslensku tónlistarlífi en þessi frumburður er óneitanlega tilkomumikill. Lagasmíðar eru stöndugar, meira og minna, og hljóðrænn frágangur – og spilamennska – í meistaradeildinni. Guðlaugur sér um gítarslátt og söng en Arnar nafni minn um annað. Í nokkrum lögum var leitað út fyrir þessa tvennd en Björk Óskarsdóttir spilaði á fiðlu, Unnur Jónsdóttir á selló og Haraldur Þrastarson á básúnu.

Hljóðheimurinn er reyndar nokkuð kunnuglegur. Þegar hlustað er sækja nokkur nöfn fast að. The Tallest Man on Earth, Damien Rice, Bon Iver t.d., þessi heimur. Semsagt, söngvaskáldatónlist, einn maður með gítar berandi hjartað. Íslensk nöfn dúkkuðu líka upp í þessum haus. Bela (Hole & Corner, 2005) og Kalli (Tenderfoot). Og vafalítið hægt að finna fullt í viðbót.

Þessi mikla fagmennska við upptökur og frágang gerir það að verkum að platan hljómar eins og þriðja plata þrautreynds söngvaskálds frá Bretlandi/Norðurlöndunum. Og áður en áfram er haldið vil ég nefna að stíll Bony Man er að nokkru leyti ólíkur þeim nöfnum sem fram hafa komið. Damien Rice og The Tallest Man on Earth teygja sig og toga raddlega séð, fara á hlemmiskeið með tilfinningar og röddin er há, jafnvel rifin á köflum. Bony Man siglir um værðarlegri höf, röddin lúrir í hálfgerðum baritón, er meira eins og ef Chris Martin hlæði í sólóplötu. Bony Man er þannig stillilegur, situr örugglega í grúvinu og togar sig aldrei né teygir. Svona færir eitt og annað um nokkra sentimetra – ef þarf.
Platan rúllar því ansi tignarlega mætti segja. Og lagasmíðafærni Guðlaugs er á býsna háu stigi þegar allt er saman tekið. Sjá t.d. „If you leave“. Dramatísk smíð sem er vel útsett. Hér tekst að knýja fram stórbrotna fleti með því að raða saman réttu hljóðfærunum, rétta flæðinu og áferðinni. Um miðbikið er lagið brotið upp á glúrin hátt og strengir fljóta glæsilega inn. Virkilega vel gert. „Better off“ er annað gott dæmi um kosti þessarar plötu. Rólegt og umlykjandi, rúllar áfram í hægð og nánast zen-ískum gír. Einfalt og snoturt, nákvæmlega eins og það á að vera. „Letter to Lisa“ er enn eitt dæmið um árangurinn hér. Hefst rólega, lætur ekki mikið yfir sér en verður hægt og sígandi afar mikilúðlegt og tígulegt. Aftur vinna hljómur, hljóðfæranotkun og lagauppbygging saman á vel heppnaðan máta.

Þetta er hins vegar ekki alltaf svona gott. Sum lögin rúlla áfram í sjálfskiptum gír, eru tilþrifalítil þó að skapalónið sé gott. Og það er ekkert lag hérna beinlínis lélegt þó sum þeirra væri hægt að fella undir nokkurs konar iðn eða „craft“ þar sem formið yfirskyggir andagiftina. En það er til vitnis um burði Guðlaugs að þetta er allt innan rammans eins og ég nefndi hér framar. Hann kann að semja lög.

Allt í allt er þetta vel heppnaður frumburður. Eins og getið er, margt er hérna virkilega með okkar manni. Það fylgir líka oft frumburðum, að sum laganna eru hálfköruð og undir of miklum áhrifum frá einhverju öðru. Persónulegur stíll er jafnan knúinn fram með virkni og framlegð, semja meira og gera meira, og mér finnst full ástæða til að hvetja Bony Man áfram í þessu starfi sínu.