Forseti Tékklands með COVID-19

26.11.2021 - 00:53
epa05212606 Czech President Milos Zeman attends the press conference with Polish President Andrzej Duda (not pictured) at Prague Castle in Prague, Czech Republic, 15 March 2015. Duda is in the Czech Republic for a two-day official visit.  EPA/MATEJ
Milos Zeman, forseti Tékklands. Mynd: EPA
Milos Zeman forseti Tékklands var lagður inn á sjúkrahús að nýju örfáum klukkustundum eftir að hann var útskrifaður þaðan í dag. Kórónuveirufaraldurinn er í örum vexti í landinu.

Til stóð að forsetinn skipaði Piotr Fiala, leiðtoga miðhægriflokksins Sameinaða bandalagsins, nýjan forsætisráðherra á morgun föstudag en því verður frestað vegna veikinda forsetans.

Zeman sem er 77 ára var lagður inn á sjúkrahús 10. nóvember vegna þess sem talið var vera skorpulifur. Í morgun hélt hann heim, fór í sýnatöku og reyndist smitaður af COVID-19.

Því verður öllum skylduverkum forsetans frestað þar til hann hefur jafnað sig. Tékkar glíma nú við mikla útbreiðslu faraldursins en tæplega 26 þúsund ný smit greindust á þriðjudaginn en 18 þúsund daginn eftir. Tékkar telja um 11 milljónir.

Sjúkrahús í austurhluta landsins eru að fyllast og hafa gripið til þess ráðs að flytja sjúklinga til þeirra hluta landsins þar sem álag er minna.

Fráfarandi ríkisstjórn Andrej Babis ákvað að grípa til samkomutakmarkana í dag, sem fela í sér lokun veitingastaða, öldurhúsa og skemmtistaða auk þess sem engir hinna hefðbundnu jólamarkaða verða haldnir í landinu.