Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fleiri próf en hraðpróf gilda frá og með miðnætti

26.11.2021 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin
Frá og með miðnætti verður hægt að framvísa neikvæðu PCR-prófi eða staðfestingu á fyrra kórónuveirusmiti til að komast inn á viðburði. Þjóðleikhússtjóri segir þetta til bóta og í takt við ábendingar viðburðahaldara.

Undanfarnar tvær vikur hefur verið í gildi krafa um að gestir á viðburðum, fæddir 2015 og fyrr, framvísi neikvæðu hraðprófi við innganginn og engin önnur próf eða vottorð hafa verið tekin gild. Viðburðahaldarar hafa gert athugasemdir við þetta og bent á að með þessu sé verið að útiloka fólk sem sannarlega sé ósmitað frá því að sækja viðburði.

Nú hefur verið gerð breyting á reglugerð um sóttvarnatakmarkanir og hún tekur gildi á miðnætti. Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir að breytngin sé tvíþætt.

„ Annars vegar verið að opna fyrir að PCR-próf séu tekin gild til jafns við hraðprófin, sem sé neikvæð niðurstaða úr því hleypir þér inn í menningarhúsin og sömuleiðis er verið að opna fyrir að þeir sem hafa fengið covid, komist á þessa menningarviðburði án þess að þurfa að fara í hraðpróf,“ segir Magnús Geir.

Þeir sem hafa fengið covid þurfa að framvísa vottorði sem staðfestir það. 

„Við erum auðvitað fegin því að það sé verið að opna þetta og gera aðgengilegra fyrir þessa tilteknu hópa,“ segir Magnús Geir.

Hann segir að hann og aðrir viðburðahaldarar hafi bent yfirvöldum á að annmarki væri á þessu fyrirkomulagi. „Þetta kemur í framhaldi af samtali sem við höfum átt við stjórnvöld og við erum að leggja okkar af mörkum til að þetta gangi sem best fyrir sig,“ segir Magnús Geir.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir