Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm fjörug og fönkí fyrir dansgólfið

Mynd með færslu
 Mynd: Maceo Plex - Revision

Fimm fjörug og fönkí fyrir dansgólfið

26.11.2021 - 14:05

Höfundar

Nú er að pússa dansskóna því það verður dansað með ryksuguna þessa helgina. Við fáum dívurnar Dames Brown frá Detroit, jazzarann Makaya McCraven, djúphúskóngana Miguel Migs og Jimpster, teknótarfinn Maceo Plex og nostalgískt jungle-teknó af sverustu sort frá Sherelle.

Dames Brown með Andrés & Amp Fiddler – What Would You Do?

Þær Athena Johnson, Teresa Marbury og LaRae Starr eru dívur frá Detroit sem sendu frá sér í síðasta mánuði lagið What Would You Do. Lag tríósins er þeirra fyrsta undir eigin nafni og er fönkuð húsnegla með sál sem sameinar sumt það besta úr tónlistarsögu Detroit.


Makaya McCraven – Black Rythm Happening

Það er ekki langt síðan bandaríski jazztrommarinn og hljómsveitarstjórinn Makaya McCraven var hér í fimmunni með lagið Sunset af plötu Deciphering the Message. Nú er það lagið Black Rythm Happening sem hann leggur í púkkið en það er endurgerð á lagi trompetleikarans Eddie Gale úr Sun Ra.


Miguel Migs – Midnight Memories (Jimpster Remix)

Lagið Midnight Memories er tekið af plötu bandaríska deep house-plötusnúðarins og upptökustjórans Miguel Migs, Shaping Visions. Miguel Migs fær síðan aðstoð bresks kollega síns, Jimpsters, við að skrúfa upp bassann og bítið þannig að allir fari á gólfið.


Maceo Plex, Program 2, Giovani – Revision

Síðast þegar Maceo Plex mætti í fimmuna var hann með brjálað remix af nostalgíuneglu Faithless, Insomnia, en nú kveður við annan tón. Lagið Revision, sem er sungið af Giovani, er af væntanlegri fyrstu breiðskífu kappans sem nefnist Solar og ætti að detta inn á næstu mánuðum.


Sherelle – Jungle Teknah

Talandi um nostalgíu þá er hún algerlega blygðunarlaus hjá henni Sherelle í laginu Jungle Teknah sem hljómar eins og hún hafi hljómað á reifi í Rotterdam snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Sherelle, sem er plötusnúður frá London, viðurkennir líka fúslega að lagið hafi orðið til eftir að hún hámaði í sig gömul Jungle Techno myndbönd á YouTube eins og enginn væri morgundagurinn.


Fimman á Spottanum