Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ekkert sem bendi til að nýja afbrigðið sé hættulegra

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Nýtt afbrigði kórónuveirunnar hefur greinst í sunnanverðri Afríku og vekur ugg víða. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist ekki hafa séð gögn sem sýni að nýtt afbrigði veirunnar hagi sér öðruvísi en Delta-afbrigðið sem Íslendingar séu að eiga við núna. Þá sé ekkert sem bendi til að bólusetningar virki verr á þetta afbrigði en önnur.

Kári segir mikilvægt að halda áfram að raðgreina veiruna til að fylgjast með nýjum afbrigðum. Ef ný afbrigði séu að ýta öðrum út þurfi að fylgjast með því en eins og staðan er núna sé ekkert sem bendi til þess að þetta nýja sé öðrum afbrigðum hættulegra. Þá sé engin ástæða til að herða aðgerðir á landamærunum. „Alls ekki, ósköp einfaldlega sjá til þess að það sé haldið áfram að raðgreina veiruna,“ segir Kári. Það sé engin ástæða til að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur. „Þetta er allt í lagi. Menn eru að velta hlutum fyrir sér, reyna að skilja þetta í smáatriðum og það er allt í lagi en ég held að þeir sem stjórna sóttvörnum verði að draga djúpt andann og láta þetta ekki trekkja sig af stað í með eitthvað sem við vildum ekki þurfa að búa við.“ 

Kári segist hlynntur þeim sóttvarnaaðgerðum sem nú er í gildi. Hann hefði viljað herða fyrir nokkrum vikum til að slakinn gæti orðið meiri yfir hátíðirnar. En það sé orðið of seint núna. Nú þurfi sóttvarnayfirvöld að halda ró sinni. Bólusetning barna gæti farið að hefjast. „Ég held að við ættum að gera það af miklum krafti vegna þess að börn á aldrinum 5-11 ára og ég held að við ættum að gera það af miklum krafti vegna þess að börn á þessum aldri eru nokkuð stór hundraðshluti þeirra sem er að bera veiruna um okkar samfélag núna.“