Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Blóðþorri greindist í fyrsta sinn á Íslandi

26.11.2021 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Rökstuddur grunur er um að veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi sé í sjókví Laxa fiskeldis í Reyðarfirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Staðbundin í einni kví

Veiran hefur nú greinst í sjókvínni og ef sú greining reynist rétt með staðfestingarprófum er þetta í fyrsta sinn sem sjúkdómsvaldandi afbrigði svokallaðrar ISA-veiru greinist í laxi hér á landi.

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, segir að sýkingin sé staðbundin í einni kví.

Taka fiskinn úr kvínni

„Við erum sem sagt að vinna í því núna að taka fiskinn úr þeirri kví og í framhaldinu munum við meta ástandið í fullu samstarfi og samráði við MAST,“ segir Jens Garðar.

Ekki liggur fyrir hvert umfang tjónsins er. Um helgina verður unnið að því að koma fisknum af stöðinni. Hún hefur verið einangruð eftir fyrirmælum Matvælastofnunnar. 

Ekki hættuleg sýking

„Eins og kemur fram í tilkynningu frá MAST er hún ekki á neinn hátt hættuleg mannfólki. Þetta er ekki nein slík sýking. Hún berst ekki í menn eða með neinum öðrum hætti,“ segir Jens Garðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu Matvælastofnunar, eins og Jens Garðar segir. „Frá því fyrsta tilfelli blóðþorra var staðfest í Noregi árið 1984 hefur veiran einnig valdið klínískum sjúkdómi hjá fjölmörgum öðrum laxeldisþjóðum. Næstu greiningar áttu sér stað í Kanada (1996), Skotlandi (1998), Færeyjum (2000), USA (2001), Chile (2001) og Írlandi (2002). Síðasta tilfelli í Færeyjum átti sér stað 2016/17 þegar klínísk sýking kom upp í stakri kví en allur annar fiskur reyndist heilbrigður og var slátrað til manneldis. Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum.“

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum vinnur nú að nánari staðfestingu og skilgreiningu á arfgerð veirunnar, segir í tilkynningunni. Í fyrstu verði greind veirusýni send til Leipzig í Þýskalandi til sérstakrar raðgreiningar, en einnig verður unnið í samvinnu við rannsóknastofu Evrópusambandsins í veirusjúkdómum lagardýra í Danmörku.

Þórgnýr Einar Albertsson