Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur aflýst ráðherrafundi sínum vegna omicron-afbrigðis kórónuveirunnar sem greindist fyrst í Suður-Afríku. Þetta segir í frétt Reuters.
Ráðherrar aðildarríkja áttu að mæta til Sviss til fundar í næstu viku en afar erfitt hefði verið fyrir sendinefndir til dæmis Suður-Afríku og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að sækja fundinn enda hefur afbrigðið einnig greinst í Belgíu.
Ferðabann
Evrópusambandið hefur bannað ferðalög þangað frá sunnanverðri Afríku þar til áhrif afbrigðisins verða ljós og tóku svissnesk stjórnvöld sömu ákvörðun í dag.
Í frétt Reuters segir að undanfarin ár hafi dregið úr vægi og áhrifum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Meðal annars vegna þess hversu illa aðildarríkjum hefur gengið að komast að sameiginlegri niðurstöðu. „Ég tel að stofnunin þurfi að sýna fram á það að hún geti náð árangri,“ sagði Ngozi Okojo-Iweala framkvæmdastjóri við Reuters.