Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

12 þúsund skammtar af barnabóluefni 5-11 ára í desember

26.11.2021 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Til skoðunar er að bólusetja börn fimm til ellefu ára gegn kórónuveirunni hérlendis, en von er á tólf þúsund barnaskömmtum fyrir áramót. Sóttvarnalæknir telur ólíklegt að unglingar tólf til fimmtán ára þurfi örvunarbólusetningu.

Verður ákveðið á næstunni

Lyfjastofnun Evrópu samþykkti í gær notkun bóluefnisins fyrir þennan aldurshóp. Lyfið er þegar komið í lyfjaverðskrá Lyfjastofnunar sem tekur gildi 1. desember. Þetta er sama bóluefni og eldra fólk fær, en börnin fá minni skammt. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það skýrist á næstunni hvort ráðist verður í bólusetningu barna yngri en tólf ára.

„Við erum bara að skoða það með okkar fólki og okkar sérfræðingum, fara í gegnum kosti og galla við það,“ segir Þórólfur. Í fyrsta lagi sé til skoðunar hvort bóluefnið verndi börnin gegn alvarlegum veikindum. „Vegna þess að börn, lítil börn, geta fengið covid alvarlega og fengið alvarlegar afleiðingar eftir smit,“ segir Þórólfur. Hin spurningin sé hvort bólusetning barna hjálpi enn frekar við að hindra útbreiðslu á smiti í samfélaginu. „Ég á von á því að við sjáum þetta betur fyrir okkur í lok næstu viku.“

Nú stendur yfir örvunarbólusetningarátak. Þórólfur býst við því að bólusetning barna bíði þar til því lýkur. „Við fáum 12 þúsund skammta af barnabóluefninu í lok desember,“ segir Þórólfur.

Unglingar þurfa ekki örvunarskammt

Stefnt er að því að bólusetja um 160 þúsund manns, sextán ára og eldri, fyrir 15. desember. Tólf til fimmtán ára þurfa að líkindum ekki örvunarskammt.

„Við erum ekki búin að ákveða að fara í örvunarbólusetningu fyrir yngsta hópinn þannig að við látum það bíða,“ segir Þórólfur. „Það virðist virka bara mjög vel þessar tvær sprautur hjá yngsta hópnum og smit eru bara tiltölulega fátíð eftir tvær bólusetningar hjá þeim sem eru á aldrinum tólf til og með fimmtán ára.“

Ekki tímabært að hafa áhyggjur af nýju afbrigði

Núgildandi sóttvarnareglur á landamærum gilda til 15. janúar. Þórólfur segir að fylgst sé með nýju afbrigði kórónuveirunnar, sem talað hefur verið um að sé skæðara en önnur afbrigði, en ekkert bendi til þess að ástæða sé til þess að herða aðgerðir að svo stöddu. „Ég held að það sé ekki tímabært að hafa áhyggjur,“ segir Þórólfur. 

„Auðvitað erum við alltaf að fylgjast með nýjum afbrigðum, hvort það gætu komið ný afbrigði sem bóluefni geti ekki verndað gegn og þetta gæti verið eitt af því, en það vantar svo mikið af upplýsingum ennþá að ég held að við þurfum bara að taka því rólega,“ segir Þórólfur. 

„Ég held að við séum með ágætis aðgerðir í gangi. Þurfum við að herða eitthvað frekar á landamærunum? Það verður bara að koma í ljós.“

En er eitthvað sem bendir til þess að þetta afbrigði sé skæðara eða hættulegra en Delta afbrigðið? „Ég hef ekki séð neinar vísbendingar um það,“ segir Þórólfur.