Uglan Þröstur öll að braggast — „Skellti sér í hjóltúr“

25.11.2021 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Branduglan Þröstur sem varð fyrir bíl í Hörgársveit í síðasta mánuði er öll að braggast. Hún borðar vel og sjónin er öll að koma til en talið var líklegt að hún hefði misst sjónina í slysinu. Vinur Þrastar sýnir reglulega frá bataferlinu á Facebook og síðast í gær fóru þeir félagar í hjólaferð.

Vildi lítið sem ekkert borða í fyrstu

Í síðasta mánuði sögðum við frá því að tveir fuglaáhugamenn á Akureyri hefðu hlúð að veikri branduglu í bílskúr í bænum. Uglan hafði þá lítið sem ekkert viljað borða og og töldu þeir sem önnuðust ugluna að hún væri blind. „Þetta er afleiðing af umferðarslysi, félagi minn var að keyra í Hörgárdalnum og hún blindaðist sennilega af ljósum og flaug á bílinn hjá honum og hann bjargaði henni bara í hús og hún virtist ekki geta flogið og við finnum ekkert brot í henni en við erum að reyna að lækna hana,“ sagði Jón Magnússon fuglaáhugamaður sem annaðist Þröst ásamt Daníel Inga, vini sínum. 

Þröstur fær beikon

Frá slysinu hafa félagarnir skipst á að annast Þröst og gert ýmsar tilraunir til að gefa honum að borða. Mýs, rjúpur, beikon og hamborgarar eru meðal þess sem Þröstur hefur fengið í gogginn undanfarnar vikur. Jón birtir reglulega myndbönd af stöðu mála á Facebook. 

Fóru saman út að hjóla

Í nýjasta myndbandinu sem Jón birti á Facebook í gær segir Jón frá því að þeir félagar hafi skellt sér út að hjóla. „Þar sem Þröstur er óvanur slíkum ferðamáta var ákveðið að ég stigi hjólið en hann fengi að stýra með mér. Það er núna léttur snjór yfir öllu hér fyrir norðan svo að allt á að vera í lagi enda hjólið mitt Sleipnir löngu komið á nagladekk,“ skrifar Jón. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Þröstur og Jón