Þyrfti að bæta merkingar á matvörum

25.11.2021 - 10:15
Mynd: Sölvi Andrason / Rúv
Bæta þyrfti merkingar á matvöru þannig að einstaklingar með sykursýki 1 geti verið fullvissir um sykurinnihald þeirra. Móðir tveggja barna með sykursýki segir íslenska framleiðendur talsvert á eftir framleiðendum í nágrannalöndum okkar.

Flókið að þurfa að reikna allt út

Þeir sem þjást af sykursýki 1 þurfa að huga vel að því hversu mikið af kolvetnum er í matvörum sem þeir innbyrða. Vissulega er hægt að sjá hve mikið af þeim er í 100 grömmum en ef á að fá sér nokkur stykki úr pakkningu er erfitt að vita magnið án þess að hafa vigt og vasareikni við höndina.

Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir er móðir tveggja barna með sykursýki segir að langoftast sé einungis gefið upp næringarinnihald í 100 grömmum. „Þá verður vigtin besti vinur þinn en það er mjög mikil vinna þannig að það er mjög þægilegt eins og t.d. á þessu sænska hrökkbrauði þar sem stendur bara hvað er í einni skífu.“

Ef ekki er gefið upp magn kolvetna í neyslueiningunni þarf að reikna það út með hlutfallsreikning sem getur verið snúið sérstaklega fyrir börn sem þjást af sjúkdómnum.

Betri upplýsingar á hinum Norðurlöndunum

Aðalheiður bjó áður í Noregi og segir mikinn mun á merkingum á vörum þar og hér. 

„Þá var maður var við það að norskir framleiðendur og sænskir eru miklu duglegri að merkja matvælin per einingu. Það var ekki allt sem þú gast verslað í búðunum en það var samt þannig að þú gast valið og ég valdi frekar vörur þar sem stóð hvað var í hverri neyslueiningu til þess bara að auðvelda okkur lífið,“ segir Aðalheiður.

Líf með sykursýki er flókið, það er aldrei hægt að slá slöku við. Allt þarf að vigta, telja og reikna. Ef kolvetnin eru ekki rétt talin miðað við magn insúlíns sem er gefið getur blóðsykurinn sveiflast mjög mikið, orðið of hár eða of lágur.

Ákall til matvælaframleiðenda

Aðalheiður hefur haft samband við flestalla matvælaframleiðendur á Íslandi og óskað eftir að merkingar verði bættar. „Ég held þetta sé bara eitthvað sem fólk hugsar ekkert út í ef það þarf ekki að gera þetta sjálft, ég held þetta sé ekki illvilji heldur frekar vankunnátta,“ segir Aðalheiður.

Einhverjir hafa svarað kallinu og segjast reiðubúnir að skoða hvernig hægt sé að bæta merkingar. Hvort það síðan verði í raun gert á eftir að koma í ljós.

Af hverju heldurðu að það sé ekki búið að gera þetta miklu fyrr? „Þetta er bara svo lítill hópur að hann hefur kannski ekki svo mikinn sannfæringarmátt og þess vegna ákvað ég bara að láta heyra í mér,“ segir Aðalheiður.