„Það má gera grín að öllu en það er ekki allt fyndið“

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

„Það má gera grín að öllu en það er ekki allt fyndið“

25.11.2021 - 15:18

Höfundar

Uppistandshópurinn Fyndnustu mínar frumsýndi um helgina sína stærstu sýningu til þessa; Náttfatapartý. Nafnið er vísun í klæðaburðinn síðasta eina og hálfa árið en sýningin átti upphaflega að vera á dagskrá Þjóðleikhúskjallarans 2019.

Hópinn mynda þær Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Rebecca Scott Lord, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir og Lóa Björk Björnsdóttir sem kynntust í Leiklistarskólanum. „Nú fáum við loksins að gera grín og fá dópamínið sem fylgir,“ segir Hekla. 

„Maður lætur sér líða eins illa og mögulegt er og skrifar svo það sem kemur,“ segir Lóa um hvernig grín fyrir svona sýningu sé búið til. „Nei, ég punkta hjá mér eitthvað fyndið sem mér dettur í hug og svo vel ég og prófa á fólki og raða upp, þetta er mjög lifandi ferli.“

Eins og áður sagði er langt síðan til stóð að halda uppistandið og bæði grín og persónur þróast síðan þá. „Líf mitt hefur orðið talsvert leiðinlegra og þar af leiðandi ég sjálf svo ég þurfti að hafa aðeins meira fyrir því að búa til efni fyrir þessa sýningu en ég lagði upp með í upphafi,“ segir Hekla. 

En þeim mun þakklátari er viðburðurinn. „Þjóðin öll hefur sennilega aldrei haft jafn mikla þörf fyrir að fara út úr húsi og hlæja.“