Stjórn KSÍ ræðir hvort hætta eigi að bjóða áfengi

25.11.2021 - 19:36
Innlent · KSÍ
Mynd: Mummi Lú / RÚV
Stjórn KSÍ hefur rætt, og hyggst ræða áfram hvort ástæða sé til að hætta að veita áfengi eftir landsleiki. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá formanni KSÍ sem hafnaði viðtali í dag, annan daginn í röð. 

KSÍ tilkynnti seint á sunnudagskvöld um starfslok Eiðs Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara íslenska landsliðs karla. Eiður fékk aðvörun frá sambandinu síðastliðið sumar eftir að myndskeið af honum drukknum fór í dreifingu. Ár er síðan Jóni Þór Haukssyni var vikið úr starfi landsliðsþjálfara kvenna vegna framkomu hans undir áhrifum áfengis í gleðskap sem haldinn var að landsliðsverkefni loknu. 

Alls eru um tuttugu og þrjú þúsund knattspyrnukonur, - menn og -börn innan vébanda Knattspyrnusambands Íslands. Fréttastofa hefur reynt bæði í dag og í gær að fá svör við spurningum um reglur um áfengi hjá sambandinu en hefur aðeins fengið stutt svar í tölvupósti að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við að leikmenn og þjálfarar fái sér einn eða tvo drykki að loknum landsliðsverkefnum. Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður sambandsins, hafnaði beiðni fréttastofu RÚV um viðtal annan daginn í röð. 

Vanda sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún segist ekki ætla að tjá sig um starfslok Eiðs. Ákvörðunin hafi verið þungbær og átt sér langan aðdraganda. Þá segir að stjórn KSÍ hafi rætt og ætli að ræða áfram, hvort ástæða sé til þess að hætta að veita hóflega áfengi að verkefnum loknum.