Stefnt að því að klára kjörbréfamálið í dag

25.11.2021 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Kjörbréfanefnd hefur lokið störfum og skilað af sér fjórum nefndarálitum með þremur tillögum í talningarmálinu í Norðvesturkjördæmi. Þingfundur hefst klukkan eitt og stefnt er að afgreiðslu málsins í dag.

 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður er á Alþingi og fjallaði um málið í beinni útsendingu í hádegisfréttum. Hún segir að ekkert hafi komið upp á, svo vitað sé, sem kæmi í veg fyrir afgreiðslu málsins. Það virðist vera vilji flestra að ljúka því í dag.

Kjörbréfanefnd lauk störfum skömmu eftir hádegi og þar með er nokkurn veginn ljóst hvernig umræðan verður hér í dag en í raun mega allir tala sem það vilja.  

Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar, segir allt benda til þess að nefndarálitin verði fjögur. „Mér sýnist að þetta verði fjögur nefndarálit. Eitt er álit frá sex fulltrúum í nefndinni og svo eru þrjú álit hvert frá sínum fulltrúanum. Tillögurnar eru hins vegar í raun bara þrjár þ.e.a.s. um það að það verði staðfest öll kjörbréfin og kosningin þar með metin gild, í öðru lagi að það verði staðfest kjörbréf allra nema þingmanna úr norðvesturkjördæmi og jöfnunarmanna með þeim afleiðingum að uppkosning  þyrfti að fara fram í norðvesturkjördæmi og svo er loks ein tillaga um það að verði uppkosning á landinu öllu þ.e.a.s. það verði ekkert kjörbréf staðfest þannig að efnt verði til uppkosninga út um allt land.“

Hefur eitthvað nýtt komið fram í störfum nefndarinnar síðustu daga? „Nei, við höfum auðvitað verið að fara yfir málið á grundvelli þeirrar greinargerðar sem við gengum frá hér á mánudag.“

Og þið bindið vonir við að ljúka málinu í dag með atkvæðagreiðslu? „já það er stefnt að því að klára bæði umræður og atkvæðagreiðslur í dag eða í kvöld.“

Þingfundur hefst á því að Birgir mælir fyrir nefndaráliti meirihlutans, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Svandís Svavarsdóttir skila sitthvoru nefndaráliti en með sömu tillögu það er uppkosningu, og Björn Leví Gunnarsson skilar nefndaráliti og er hans tillaga að kjósa aftur allsstaðar. Síðan mega í raun allir taka til máls sem það vilja á Alþingi í dag.

Ekki liggur fyrir hvenær greidd verða atkvæði. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forseti Alþingis, sagði í gær að ef umræðan myndi standa fram á nótt þá yrði atkvæðagreiðslu frestað til morguns.