Starfsmenn Amazon ætla í verkfall á morgun

25.11.2021 - 17:28
Amazon samkeppni samkeppnisbrot ESB Evrópusambandið.
 Mynd: EPA
Starfsmenn vöruhúsa vefverslunarkeðjunnar Amazon í tuttugu löndum ætla að leggja niður störf og mótmæla á morgun. Morgundagurinn er meðal allra stærstu netverslunardaga hvers árs, svokallaður svartur föstudagur.

Hópur verkalýðsfélaga í ríkjum á borð við Bandaríkin, Bretland og nokkrum ríkjum Evrópusambandsins, segja Amazon hirða of mikið af gróðanum og gefa of lítið til baka. Alls standa um fimmtíu verkalýðsfélög að baki herferðinni. Þau krefjast meðal annars hærri launa starfsmanna í vöruhúsum, auk áhættuþóknunar og álagsgreiðslna. Þá vilja þau að eftirliti með starfsfólki verði hætt, fleiri veikindadaga, aukna skimun fyrir COVID-19, að Amazon hætti aðför sinni að verkalýðsfélögum, og að fyrirtækið greiði skatta án þess að nýta sér glufur eða skattaskjól.

Fréttastofa BBC greinir frá því að starfsmenn vöruhúsa Amazon í Bretlandi séu ekki allir í verkalýðsfélögum. Það verða því einhverjir við störf í vöruhúsum þeirra á morgun. 

Amazon mokgræddi á því að fólk þurfti að vera meira heima fyrir í kórónuveirufaraldrinum. Fyrirtækið greindi frá þreföldum hagnaði fyrr á þessu ári.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV