Skyndiárásir stórra og bíræfinna þjófahópa til vandræða

25.11.2021 - 03:34
A security guard stands outside the Nordstrom store at The Grove retail and entertainment complex in Los Angeles, Tuesday, Nov. 23, 2021. Los Angeles police say a group of thieves smashed windows at the department store at the luxury mall late Monday, the latest incident in a trend of smash-and-grab crimes is part of a national trend. (AP Photo/Eugene Garcia)
 Mynd: AP
Verslunarrekendur í Kalifornínu og fleiri ríkjum Bandaríkjanna hamast nú við að bæta öryggisgæslu í verslunum sínum og læsa verðmætasta varning sinn inni í traustum hirslum. Þetta gera þeir í kjölfar fjölda bíræfinna rána um hábjartan dag, þar sem tugir þjófa hafa rottað sig saman á samfélagsmiðlum og stormað í stórhópum inn í búðir sem einkum selja dýra merkjavöru og látið þar greipar sópa án þess að öryggisverðir og annað starfsfólk fái rönd við reist.

Nú síðast gerðist það í San Francisco að um 80 grímuklæddir þjófar á 25 bílum óku að Nordstrom-verslun í Walnut Creek austur af San Francisco á laugardag, réðust inn á jarðhæð verslunarinnar og stálu þar öllu steini léttara á örfáum mínútum og létu sig svo hverfa. Nordstrom rekur stórmarkaði þar sem seldir eru skartgripir, föt og fylgihlutir þekktra tískuhúsa og dýr hönnunar- og merkjavara af ýmsu tagi.

Rændu milljónavirði á örskotsstundu

Degi fyrr renndu fjörutíu bíræfnir og grímuklæddir þjófar upp að verslun Louis Vuitton í San Francisco og tæmdu þar allar hillur á örskotsstundu og brunuðu síðan á brott.

3.400 kílómetrum austar, í næsta nágrenni Chicago, léku 14 grímuklædd og fingralöng fól  sama leik í Louis Vuitton verslun þegar þau hrifsuðu til sín lúxushandtöskur, fatnað og annað fínerí að verðmæti 12,5 milljóna króna á örfáum sekúndum. Var það þriðja fjöldaskyndiránið af þessu tagi sem framið hefur verið í Chicago og nágrenni á tæpum mánuði.

Erfitt að verjast fyrirvaralausum fjöldaárásum

Þessar nýstárlegu, bíræfnu og illviðráðanlegu ránsferðir hafa vakið athygli og áhyggjur verslunareigenda um Bandaríkin öll, segir í frétt AFP, og leita þeir nú allra leiða til að verjast þeim. Þær leiðir hafa þó ekki fundist enn.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu,  segir þessar skipulögðu ránsferðir í stórverslanir ólíðandi, enda eigi eigendur, starfsfólk og viðskiptavinir þeirra aldrei að þurfa að óttast um öryggi sitt og allra síst í aðdraganda þakkargjörðarhátíðar og jóla.

Hann fyrirskipaði á dögunum að settur skyldi á laggirnar sérstakur aðgerðahópur lögreglunnar til að takast á við vandann en allt kom fyrir ekki, því fjöldaskyndiránum fjölgar sem aldrei fyrr.

Hryðjuverk eða skipulögð glæpastarfsemi?

Í frétt AFP segir að rán af þessu tagi séu ekki alveg ný af nálinni en þeim hafi hvort tveggja fjölgað mjög og orðið fjölmennari og bíræfnari á þessu ári. Og stærð og skilvirkni ræningjahópsins sem réðst á Nordstrom-búðina í Walnut Creek, segir í fréttinni, kom mörgum í opna skjöldu.

„Ég myndi ekki einu sinni skilgreina þetta sem skipulagða glæpastarfsemi, þetta var hryðjuverk heimafólks,“ sagði Rachel Michelin, formaður Samtaka verslunareigenda í Kaliforníu um Nordstrom-ránið í sjónvarpsviðtali.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV