Rafskútur í París á gönguhraða

25.11.2021 - 18:17
epa08074914 A woman rides an electric scooter (e-scooter) as commuters wait at a bus stop outside Gare du Nord train station during a general strike action, in Paris, France, 16 December 2019. Unions representing railway and transport workers and many others in the public sector have called for a general strike and demonstration to protest against French government's reform of the pension system.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Borgaryfirvöld í París hafa samþykkt að lækka hámarkshraða rafskútna á flestum götum borgarinnar niður í 10 kílómetra á klukkustund í íbúðagötum. Þó má áfram aka á 20 kílómetra hraða á hjólreiðastígum og breiðstrætum, sem tengja borgina við úthverfi. Rafskútuleigum verður gert að uppfæra hubúnað í skútunum þannig að þær komist ekki hraðar en reglur segja til um hverju sinni.

Athygli vekur að reglurnar gilda ekki um einkaskútur. Þeir sem eiga slíkar geta haldið áfram að þeysast um borgina en hinir, sem vilja leigja, þurfa að sætta sig við að ferðast á gönguhraða eða því sem næst.

Rafskútur hafa komið við sögu í 298 slysum í París, það sem af er ári, og hafa tveir látið lífið í þeim og 329 slasast. Í fyrra voru slysin 375 og andlát eitt.

Borgaryfirvöld í París, með borgarstjórann Önnu Hidalgo í broddi fylkingar, hafa undanfarin ár markvisst unnið að því að draga úr notkun einkabíla í borginni; fækkað bílastæðum og akreinum, fjölgað göngugötum og hjólastígum auk þess að áforma að lækka almennan hámarkshraða niður í 30 kílómetra á klukkustund.

Af nýjustu tíðindum að dæma virðast rafskútur þó ekki vera burðarás í áformum yfirvalda um breyttar ferðavenjur.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV