Óvíst að Maria Ressa fái að taka við Nóbelsverðlaununum

25.11.2021 - 17:30
epa09514668 Nobel Peace Prize laureate Maria Ressa, CEO and Executive Editor of online news site Rappler arrives for an interview at a restaurant in Taguig City, Manila, Philippines, 09 October 2021. Maria Ressa, CEO and Executive Editor of online news site Rappler along with Dmitry Muratov, editor-in-chief of newspaper Novaya Gazeta were announced winners of the 2021 Nobel Peace Prize by the Nobel Committee in Oslo on 08 October 2021.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE
Ríkislögmaður á Filippseyjum er andvígur því að blaðakonan Maria Ressa fái að fara til Óslóar til að taka á móti friðarverðlaunum Nóbels í næsta mánuði. Hann kveðst óttast að hún snúi ekki aftur heim.

Maria Ressa er einn af stofnendum filippseyska fréttavefjarins Rappler. Hún hlaut friðarverðlaunin í ár ásamt rússneska ritstjóranum Dmitry Muratov, sem tók þátt í að stofna fréttablaðið Novaya Gazeta. Verðlaunin hlutu þau fyrir að berjast fyrir tjáningarfrelsinu og greina á gagnrýninn hátt frá starfsháttum forseta Filippseyja og Rússlands.

Maria Ressa gengur laus gegn tryggingu. Hún hefur meðal annars verið ákærð fyrir skattsvik og lygar á netinu. Fyrir það á hún yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi. Hún fór fram á það við dómara að fá að fara til Noregs til að taka við friðarverðlaununum sem verða afhent í Ósló 10. desember.

Jose Calida ríkislögmaður leggst gegn því að leyfið verði veitt. Hann hefur lagt fram andmæli fyrir áfrýjunarrétti í Manila. Að sögn AFP fréttastofunnar sem hefur séð rökstuðninginn kemur þar fram að Ressa hafi með fréttaflutningi sínum sýnt dómskerfi Filippseyja lítilsvirðingu og því sé hætta á að hún snúi ekki til baka. Jafnframt kemur þar fram að hún hafi ekki sýnt fram á næga ástæðu þess að fara til Óslóar. Von er á úrskurði réttarins á næstu dögum.

Á fréttavef VG er haft eftir Berit Reiss-Andersen, formanni norsku Nóbelsnefndarinnar, að mikil sé skömm þeirra þjóða sem leyfi friðarverðlaunahöfum ekki að taka við þeim í eigin persónu.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV