Óeining innan Vinstri grænna varðandi kjörbréfin

25.11.2021 - 20:32
Þær Svandís Svavarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem eiga sæti í kjörbréfanefnd, eru sammála um að ekki eigi að staðfesta öll kjörbréf. Þar sem varðveisla kjörgagna hafi ekki verið fullnægjandi á milli talninga komust þær báðar að þessari niðurstöðu.

Frá þessu greindu þær Svandís og Þórunn í Kastljósi í kvöld. Jóhann Friðrik Friðriksson og Diljá Mist Einarsdóttir vilja hins vegar að öll kjörbréf verði staðfest þar sem ekkert bendi til beins orsakasamhengis á milli þeirra annmarka sem urðu við talningu í kjördæminu og niðurstöðu kosninganna. Jóhann Friðrik sagði í Kastljósi í kvöld að vissulega hafi verið margvíslegir ágallar á framkvæmd talningarinnar. Ekkert hafi þó bent til þess að það mætti ætla að þó kjörgögn hafi sannarlega ekki verið varin um tíma að það væru orsakatengsl á milli þess og niðurstöðu kosninganna.

Þessa sömu annmarka nota þær Svandís og Þórunn til þess að rökstyðja sitt mál. Það er að þar sem kjörstjórn í norðvesturkjördæmi gat ekki staðfest fullnægjandi vörslu kjörgagna á milli talninga, þá sé ekki útilokað að eitthvað hafi gerst. „Þarna er ekki hægt að sannreyna að ekki hafi verið átt við gögnin. Það snýst ekki um að bera óheilindi eða óheiðarleika upp á neinn, heldur um það að framkvæmd kosninga, rétt eins og framkvæmd stjórnvalda í öllum efnum, þarf að vera þannig að almenningur treysti því að það hafi verið haft rétt við og það er ekki hægt í þessu máli,“ sagði Svandís við Einar Þorsteinsson í Kastljósi í kvöld. 

Diljá Mist sagði að allir í nefndinni hafi verið sammála um að fjölmargir ágallar hafi verið í framkvæmdinni. „Hins vegar þá gera kosningalögin það að skilyrði að það séu tengsl á milli ágallanna og niðurstöðu kosninganna,“ sagði hún.

Óeining hjá Vinstri grænum

Það vakti nokkra athygli að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti því afdráttarlaust yfir í kvöldfréttum sjónvarps að hún ætlaði að staðfesta kjörbréf allra þingmanna. Aðeins helmingur þingflokks Vinstri grænna greiddi atkvæði með staðfestingu kjörbréfa þingmanna í norðvesturkjördæmi, en allir þingmenn hinna tveggja stjórnarflokkanna.

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV