Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Macron vill neyðarfund vegna stöðu flóttafólks í Evrópu

25.11.2021 - 04:23
epa09601870 An ambulance arrives at the emergency entrance at Calais Hospital Center, in Calais, France, 24 November 2021. At least 31 migrants are dead and two more were brought to the hospital after the boat they were on sank.  EPA-EFE/Mohammed Badra
27 drukknaðu þegar leki kom að lélegum og of litlum bát þeirra á Ermarsundinu. Tveimur var bjargað og þau flutt á sjúkrahús í Calais. Þau voru við dauðans dyr vegna ofkælingar eftir volkið í sjónum. Mynd: EPA-EFE - EPA
Frakklandsforseti kallar eftir leiðtogafundi í Evrópusambandinu vegna stöðunnar í málefnum flóttafólks í aðildarríkjum sambandsins. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, gaf út tilkynningu þessa efnis eftir að 27 flóttamenn drukknuðu þegar gúmmíbátur þeirra sökk á Ermarsundinu á miðvikudag. Fólkið var á leið frá Frakklandi til Bretlands þegar loft tók að leka úr yfirfullum gúmmíbátnum með þeim afleiðingum að hann sökk. Ásakanir ganga á milli Frakklands og Bretlands vegna ástandsins við sundið.

. „Frakkland mun aldrei láta það viðgangast að Ermarsundið verði að kirkjugarði,“ sagði Macron, samkvæmt frétt AFP. 27 drukknuðu þegar bátnum hvolfdi en tveimur var bjargað að sögn franska innanríkisráðherrans Gérald Darmanins. Þau voru flutt á sjúkrahús, þungt haldin vegna ofkælingar.  Upphaflega var talið að 31 hefði farist en sú tala var lækkuð í 27 síðar í gær.

Johnson og Macron skiptast á pólitískum skotum

Ásakanir gengu á víxl yfir sundið eftir að fréttir bárust af hörmulegum örlögum flóttafólksins. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagðist miður sín og brýndi Frakka til að gera meira til halda fólki frá því að reyna að sigla yfir sundið. Glæpamenn sem gerðu út á að smygla nauðstöddu fólki kæmuust bókstaflega upp með mannsmorð vegna aðgerðaleysis Frakka, sagði Johnson.

Macron svaraði því til að Bretar yrðu að hætta að nýta sér neyð flóttafólks og skelfilegt ástandið við sundið til að slá pólitískar keilur á heimaslóð. Innanríkisráðherrann Darmanin minnti Breta á að þeir þyrftu líka að taka þátt í að leysa vandann. Hann segir engin deili þekkt á fólkinu sem fórst; hvorki nöfn þeirra né þjóðerni séu þekkt.

Franska lögreglan upplýsti að fjórir menn hefðu verið handteknir vegna málsins, grunaðir um smygl á fólki.