Krefjast aðgerða á Hofsósi innan tveggja vikna

25.11.2021 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Umhverfisstofnun krefst þess að olíufélagið N1 fari í úrbætur vegna leka frá bensíngeymi félagsins á afgreiðslustöð þess á Hofsósi. Í fyrirmælum sem stofnunin gaf út segir að grafa þurfi skurði og setja niður loftunarrör innan tveggja vikna.

Lekinn kom í ljós fyrir 2 árum

Í desember 2019 var staðfestur olíuleki frá bensíngeymi N1 á Hofsósi, sem var síðar grafinn upp og fjarlægður. Í ljós kom olíumengun í jarðvegi. Tvö hús voru rýmd vegna mengunar, en reynt var að lofta um jarðveginn með þar til gerðum búnaði. Þau hús eru enn tóm. N1 fékk Verkís til að vinna úrbótaáætlun og fóru mælingar fram á svæðinu í sumar. Að mati sérfræðinga Verkís þyrfti að grípa til frekar aðgerða á svæðinu.

Sjá einnig: Hreinsun á Hofsósi gæti tekið um 2 ár

Skurðir og loftunarrör

Fyrirmæli Umhverfisstofnunar byggja á tillögum sem settar voru fram úrbótaáætlun sem Verkís hf. vann. Þar kemur fram að markmið hreinsunarinnar sé að þau hús sem hafi orðið fyrir áhrifum mengunarinnar  verði sem fyrst íbúðarhæf og að styrkur mengunarinnar í þeim valdi ekki heilsuspillandi áhrifum. Þá fer stofnunin fram á að skurðir og loft­un­ar­rör­um verði komið fyr­ir í þeim, meðfram áfram­hald­andi rann­sókn­um á styrk rok­gjarnra efna í jarðvegi. Þá fer Um­hverf­is­stofn­un fram á að við út­blást­ur loft­un­ar­röra verði kolas­ía til að minnka þá lykt sem berst út í and­rúms­loftið.