Katrín greiðir atkvæði með staðfestingu kjörbréfa

25.11.2021 - 19:18
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ætlar að greiða atkvæði með staðfestingu kjörbréfa þeirra 63 þingmanna sem nú sitja á þingi. Frá þessu greindi hún í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í sjónvarpsfréttum í kvöld. Hún sagði að það lægi fyrir að við Alþingi blasi ekki einfalt úrlausnarefni. 

„Auðvitað snýst þetta í grunninn um það hvort þingmenn meti það svo að þeir annmarkar sem tvímælalaust og ótvírætt eru á vörslu atkvæða og aðrir þeir annmarkar sem hafa verið nefndir í umræðum í dag, hvort líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á niðurstöður kosninga,“ sagði Katrín í sjónvarpsfréttum. 

Hún segist staðfesta kjörbréfin því hún telji að það þurfi að leiða að því mjög sterkar líkur að annmarkarnir hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna. Ógilding kjörbréfa í einu kjördæmi þýði uppkosningu í því kjördæmi, sem Katrín sagðist telja bjagaða mynd að lýðræðislegum kosningum. „En það er auðvitað afleiðing af ógildingu og ekki beinlínis það sem við kjósum um hér á eftir,“ sagði Katrín.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV