Jólaljósin geta kveikt í húsinu

25.11.2021 - 09:32
Mynd með færslu
 Mynd: RAI
Þó að aðventan sé ekki gengin í garð eru margir búnir að skreyta og láta jólaljósin vinna á skammdeginu. Þá eru stórar skreytingahelgar í uppsiglingu og ekki úr vegi að fara yfir hvað getur farið úrskeiðis.

Það er ekki aðeins hætta á að menn beinbrjóti sig við loftfimleika þegar þeir setja upp jólaseríurnar. Rafmagn er stórvirkasti brennuvargur nútímans, segir í frétt á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem landsmönnum eru gefin góð ráð til að forðast íkveikju frá jólaljósum. 

Fyrsta vers er að athuga hvort jólaljósin séu orðin gömul og úr sér gegnin með vírana bera og hvort kaupa þurfi ný. Þá þarf að velja rétta tegund og passa sig að nota ekki inniseríur úti. Einnig þarf að varast óvönduð jólaljós. 

Ef skipta þarf um perur þurfa þær að vera af réttri stærð og gerð til að þær ofhitni ekki. Ef deyr á perum þarf að skipta um þær strax því annars geta hinar perurnar ofhitnað. Rafljós geta kveikt í gluggatjöldum til dæmis og réttast að hafa þau í hæfilegri fjarlægð frá brennanlegum efnum. Þá ber að varast að láta loga á inniseríum lengi yfir nótt eða þegar fólk er að heiman. 

Það færist í vöxt að jólaseríum sé hrúgað í glerílát til skrauts og lýsingar en ekki er sama hvernig seríur eru notaðar í það. Ef perurnar hitna getur fjandinn orðið laus. 

Svo eru það kertin. Það getur reynst illa að láta kerti standa ofan á raftæki, þar sem það getur brætt sér leið niður í tækið og kveikt í. 

Þá er aðventan tíminn til að huga að brunavörnum á heimilinu, slökkvitæki og eldvarnarteppi. Best er að skipta um rafhlöður í öllum reykskynjurum árlega og hafa fleiri skynjara en færri. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV