Ísland vann Japan í fyrsta skipti í Hollandi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Ísland vann Japan í fyrsta skipti í Hollandi

25.11.2021 - 20:33
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann 2-0 sigur gegn Japan í vináttulandsleik liðanna á Yanmar vellinum í Almere í Hollandi í kvöld. Þetta var í fjórða sinn sem liðin mættust en í fyrsta skipti sem Ísland hafði betur.

Fyrstu mínúturnar voru rólegar en það dró til tíðinda á 14. mínútu þegar Sveindís Jane Jónsdóttir tók á sprettinn að teig Japana og skaut að marki úr þröngu færi. Markverði Japana tókst ekki að verjast skotinu, missti boltann undir sig og Ísland komið í forystu 1-0. Liðin skiptust svo á að sækja og á 29. mínútu var Agla María Albertsdóttir nálægt því að tvöfalda forystu Íslands en boltinn hafnaði í þverslánni og Ísland leiddi enn með einu marki þegar flautað var til hálfleiks.

Bæði lið héldu áfram að skapa sér færi í seinni hálfleiknum en færi íslenska liðsins voru þó hættulegri. Berglind Björg Þorvalsdóttir kom svo inn á sem varamaður á 63. mínútu þegar Þorsteinn Halldórsson gerði þrefalda skiptingu. Þá liðu um sjö mínútur þar til Berglind tvöfaldaði forystuna eftir góðan undirbúning Sveindísar Jane og Glódísar Perlu Viggósdóttur. Fleiri urðu mörkin ekki og 2-0 sigur Íslands niðurstaðan.

Japan hafði unnið allar þrjár viðureignir liðanna hingað til. Fyrri leikirnir þrír voru allir á Algarve Cup, árin 2015, 2017 og 2018. Fyrsti sigur Íslands gegn Japan því niðurstaðan.