Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekki útilokað að gos fylgi hlaupi úr Grímsvötnum

25.11.2021 - 09:22
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ekki er útilokað að gos fylgi hlaupi úr Grímsvötnum, segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði, enda ein virkasta eldstöð landsins. Vísindaráð almannavarna fundaði í gær, eftir að mælingar sýndu að íshellan þar væri farin að síga. Það er vísbending um að hlaup sé í vændum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni í morgun hélst sighraði íshellunnar nokkuð jafn í nótt. GPS-mælir Veðurstofunnar sýnir að hellan hefur sigið um 25 sentímetra frá því um klukkan tíu í gærmorgun. Engar markverðar breytingar hafa hins vegar mælst í Gígjukvísl hvorki á vatnshæð, rafleiðni né gasi.

Hlaupið hefst ekki á dramatískan hátt

Áður hefur reglulega fylgt gos í kjölfar Grímsvatnahlaups, síðast árið 2004. 

„Það er alveg raunhæfur möguleiki og menn eru að fylgjast með því og verða vakandi fyrir því að þetta gæti gerst. Það væri þegar færi að síga á seinni hluta hlaupsins, það væri svona líklegast,“ sagði Magnús Tumi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Nokkur jarðhiti er undir Grímsvötnum, vegna kvikuhólfs sem er þar undir. Magnús Tumi segir að þegar vatn hefur hlaupið úr dældinni geti það leitt til goss þar sem þrýstingurinn er þá farinn af eldstöðinni.

Hann segir að byrjun á Grímsvatnahlaupi sé ekki dramatískur atburður.

„Það bara byrjar að seytla vatn, svo rís þetta hægt og rólega. Það er bara nefið sem ákveður það [hvort hlaup sé hafið], eða mælar. Það er ekki einhver flóðbylgja, þetta er ekkert þannig.“

Mun meira vatn en í Skaftárhlaupi í sumar

Talið er að hámarksrennsli verði um fimm þúsund rúmmetrar á sekúndu en hlaup af þeirri stærðargráðu mun að öllum líkindum hafa lítil áhrif á vegi og brýr á Skeiðarársandi. Magnús Tumi segir að nú sé þó töluvert meira vatn í Grímsvötnum en verið hefur síðustu 25 ár.

„Í Grímsvötnum er núna kannski þrefalt eða fjórfalt meira heldur en var í Eystri-Skaftárkatli sem hljóp núna í sumar. Ef við förum svo lengra aftur þá var oft miklu meira vatn í Grímsvötnum. Þau hafa breyst töluvert, en þetta er talsvert meira heldur en verið hefur á síðustu 25 árum.“
 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV