Ekkert miðar í viðræðum við stjórnvöld í Íran

epaselect epa09600461 Director General of the International Atomic Energy Agency (IAEA) Rafael Mariano Grossi attends a press conference during a virtual IAEA Board of Governors meeting at the IAEA headquarters of the UN seat in Vienna, Austria, 24 November 2021.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
 Mynd: epa
Forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar segir viðræður um við stjórnvöld í Íran engu hafa skilað. Öll ágreiningsefni um fyrirkomulag á eftirliti stofnunarinnar með kjarnorkuáætlun Írans séu enn óleyst, aðeins nokkrum dögum áður en viðræður um framtíð kjarnorkusamkomulags Írans og nokkurra af helstu stórveldum heims eiga að hefjast.

Forstjórinn Rafael Grossi greindi frá því á stjórnarfundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar að samtöl hans við stjórnvöld í Teheran síðustu daga hefðu verið uppbyggileg en ekki leitt til neinnar niðurstöðu.

Grossi reyndi fyrr á þessu ári að fá Írana til að aflétta hömlum á ferða- og athafnafrelsi eftirlitsmanna stofnunarinnar í Íran, fá svör við spurningum um auðgað úran í fórum Írana sem ekki hefur verið gefið upp og ræða meðferð og aðbúnað starfsfólks Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í Íran. Þær viðræður báru engan árangur og það sama var uppi á teningnum nú, sagði forstjórinn, þrátt fyrir að hann hefði lagt sig allan fram.

Tímamótasamningur í uppnámi

Íranar undirrituðu samkomulag við Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Evrópusambandið, Kína og Rússland árið 2015. Það setur strangar skorður við framleiðslu Írana á auðguðu úrani og kveður á um reglubundið eftirlit Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar með því, að Íranar fari að ákvæðum samningsins. Í staðinn skyldi olíusölubanni og öðrum refsiaðgerðum gegn Írönum aflétt.

Stjórn Donalds Trumps sagði Bandaríkin einhliða frá samningnum vorið 2018 og innleiddi refsiaðgerðir gegn Íran á nýjaleik. Hefur á ýmsu gengið síðan og Íranar aukið auðgun úrans, þrátt fyrir tilraunir annarra aðildarríkja samningsins til að fá þá til að virða hann áfram.

Joe Biden, arftaki Donalds Trumps í Hvíta húsinu, lýsti því svo yfir að Bandaríkin myndu gerast aðilar að samningnum að nýju, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Íranar segja hins vegar ekkert til að semja um; samkomulagið liggi fyrir og Bandaríkjamönnum velkomið að gerast aðili að því aftur á sömu forsendum og fyrr. Ef aðrir standa við sitt, segja stjórnvöld í Íran, þá - og þá aðeins - muni Íranar gera það líka.