Einn til tveir læknar sviptir starfsleyfi árlega

25.11.2021 - 22:00
Mynd: Pexels / Pexels
Einn til tveir læknar eru sviptir starfsleyfi að meðaltali á ári. Fjórir heilbrigðisstarfsmenn voru sviptir leyfi á síðasta ári.  Læknar sem vilja öðlast leyfi að nýju þurfa að sýna fram á það sem olli sviptingunni sé ekki lengur til staðar.

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú sex andlát á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem ætla megi að hafi verið ótímabær og borið að með saknæmum hætti. Einnig er rannsökuð meðferð fimm annarra sjúklinga sem rökstuddur grunur sé um að hafi verið skráðir í lífslokameðferð að tilefnislausu og öryggi þeirra þar með ógnað. Fyrrverandi læknir á stofnuninni var sviptur starfsleyfi. Hann fékk síðan takmarkað leyfi að nýju til að vinna undir eftirliti. Annar læknir sem einnig hefur stöðu sakbornings í málinu hefur ekki verið sviptur leyfi enda hans hlutur í málinu talinn mun minni.

Varðandi slíkar sviptingar almennt segir landlæknir að málin séu misjöfn en unnið sé innan lagarammans.  Hægt er til að mynda að svipta lækni leyfi vegna veikinda viðkomandi eða faglegrar vanhæfni. Stundum sé byrjað á bráðabirgðasviptingu til þriggja mánaða á meðan mál er rannsakað. Einnig getur viðkomandi sótt um endurveitingu leyfis. 

„Ef viðkomandi hefur verið sviptur vegna veikinda þá þarf hann að vera búinn að fá meðferð, viðeigandi, og síðan ef það er vegna faglegrar vanhæfni þá þarf viðkomandi að vera búinn að fá endurhæfingu, menntun eða þjálfun. Síðan er það þannig að við veitum ekki starfsleyfi eins og var áður heldur er það almennt takmarkað, til dæmis við ákveðinn stað og tímabundið. Fyrst erum við með viðkomandi undir eftirliti sem búið er að ákveða,“ segir Alma Möller landlæknir.

Eftirlitið er í samstarfi við embætti landlæknis og skilgreining á því liggur þegar fyrir. Áfangaskýrslum er síðan skilað. Sá sem sinnir eftirlitinu  vinnur  náið með þeim svipta.

„Hann er yfirleitt við hlið hans til að byrja með, en kannski smám saman fær viðkomandi að gera meira, en það er fylgst með að markmiðum endurhæfingar sé náð og að viðkomandi sé að starfa bara innan þess ramma sem ákveðinn hefur verið.“

Þá geta heilbrigðisstarfsmenn lagt inn leyfi ef þeir geta ekki sinnt starfi sínu, til dæmis vegna veikinda, en árlega komi til sviptinga.

„Það eru kannski eitt til tvö tilvik á ári. Í fyrra voru fjórir heilbrigðisstarfsmenn sviptir starfsleyfi, þannig að það er svolítið misjafnt en einn til tveir að jafnaði.“ 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV