Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bretar herða takmarkanir vegna nýs kórónuveiruafbrigðis

epa09600300 A protective face mask lies on the ground near the Old Town Square in Prague, Czech Republic, 24 November 2021. Tests in the Czech Republic confirmed almost 26.000 new cases of Covid-19 on 23 November, the highest single-day number since the outbreak began, according to data from the Czech Ministry of Health.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ferðamönnum frá sex löndum í sunnanverðri Afríku verður gert að sæta sóttkví við komuna til Bretlands. Ástæðan er uggur um að fólkið kunni að bera nýtt mjög stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum og vitnar í sérfræðing sem óttast að þetta nýja afbrigði, þekkt sem B.1.1.529, sé það versta hingað til.

Jafnvel þykir margt benda til að það geti komist framhjá þegar áunnu ónæmi. Aðeins um sextíu tilfelli hafa greinst af afbrigðinu, í Suður-Afríku, Hong Kong og Botswana. Þess hefur ekki orðið vart á Bretlandi. 

Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segir vísindamönnum brugðið en að enn sé verið að rannsaka afbrigðið. Ísraelar og Japanir hafa hert takmarkanir á landamærum vegna þessa. 

Javid segir að afbrigðið sýni enn fleiri stökkbreytingar en Delta afbrigðið sem geti bent til að það sé mjög smitandi. Það gæti einnig orðið til þess að núverandi bóluefni veiti minni vörn gegn því en öðrum afbrigðum enda mjög ólíkt upprunalega afbrigðinu.  

Afbrigðið telur um fimmtíu stökkbreytingar, þar af þrjátíu á broddpróteini veirunnar sem ræðst á frumur líkamans. Búist er við að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gefi því heiti bókstafs úr gríska stafrófinu á morgun.

Mörg dæmi eru um ný afbrigði sem hafa virst mjög hræðileg en ollu litlum sem engum usla. Dæmi um það er Beta-afbrigðið sem vart varð í upphafi árs, sem slapp hæglega framhjá ónæmiskerfi líkamans. Að lokum varð það þó Delta-afbrigðið sem náði mestri útbreiðslu. 

Bresk yfirvöld hafa því frá og með morgundeginum ákveðið að banna öllum öðrum en breskum og írskum ríkisborgurum að ferðast til landsins frá Suður-Afríku, Namibíu, Zimbabwe, Botswana, Lesotho og Eswatini - sem áður hét Swasiland.

Öllum sem þaðan komu undanfarna tíu daga er gert að undirgangast PCR-próf. Ferðabannið gildir uns mögulegt verður að bjóða ferðafólki gistingu á sóttvarnahótelum að nýju. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV