Bragðaði á drykk sem mögulega hafði verið átt við

25.11.2021 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: Stúdentakjallarinn - Aðsend mynd
Lögregla og sjúkralið voru kölluð að Stúdentakjallaranum í gærkvöld eftir að kona sem var gestkomandi á staðnum lognaðist út af. Grunur lék á að konunni hefði verið byrlað og til að sannreyna það ákvað rekstrarstjóri staðarins að bragða sjálfur á drykknum.

 

Auðunn Orri Sigurvinsson, rekstrarstjóri Stúdentakjallarans, segir í samtali við fréttastofu að starfsmenn staðarins hafi orðið varir við að einn gestur væri sofnaður. Auðunn segist hafa reynt að ná sambandi við konuna en þegar hún sýndi engin viðbrögð hafi hann ákveðið að hringja í Neyðarlínuna.

Vildi ekki á sjúkrahús

Rétt áður en sjúkralið og lögregla mæta á staðinn rankar stúlkan við sér en er þó með skerta meðvitund. „Ég tók drykkinn til hliðar og bað svo um að drykkurinn yrði skoðaður frekar. Lögreglan sagðist ekki geta það þar sem hún var ekki með tæki til þess og eina leiðin til fá úr því skorið væri að taka blóðprufu. Konan var eðlilega skelkuð og vildi frekar fara heim en upp á slysadeild og hún fór heim í fylgd,“ segir Auðunn Orri.

Fann óeðlileg áhrif

Eftir að hafa gert aðra árangurslausa tilraun til að fá lögreglu til að skoða drykkinn ákveður Auðunn Orri að bragða sjálfur á drykknum. „Ég fann fyrir töluvert miklum áhrifum. Ekki áfengisáhrifum því ég hafði ekki drukkið allt kvöldið heldur hausverk, ógleði og þreytu. Ég hafði hugsað mér að fara upp á slysó en var í þannig ástandi að ég gat ekki ímyndað mér neitt annað en að fara heim. Ég var mjög slappur en það leið ekki yfir mig eða neitt svoleiðis.“

Auðunn Orri segist halda að einhverju hafi verið laumað í drykk konunnar enda áhrifin af drykknum í hæsta máta óeðlileg. Hann setur þó þann fyrirvara að honum hafi ekki verið byrlað áður og því treysti hann sér ekki til að fullyrða það.

Fylgjast betur með byrlunum

Þetta er í fyrsta skipti sem mál af þessu tagi kemur upp á Stúdentakjallaranum. Upptökur úr öryggismyndavélum verða skoðaðar og því verður lagt að starfsfólki að vera vakandi fyrir mögulegum byrlunum. „Við höfum verið heppin með kúnnahóp og það hefur aldrei verið neitt vesen en eftir gærkvöldið munum við hundrað prósent fylgjast betur með. Við höfum verið með dyraverði á stærri kvöldum og það verður lagt að þeim að fylgjast enn betur með.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson