Bólusetningabílinn kominn á kreik

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Nú þurfa þeir sem eiga erfitt með að komast í bólusetningu ekki lengur að örvænta því bólusetningabíllinn er kominn á kreik. Í dag var boðið upp á Pfizer og Janssen-sprautu inni í bílnum eða á vinnustað. Bólusetningabíllinn fór í sína fyrstu ferð í dag.

Undirbúningur fyrir ferð bólusetningabílsins er í fullum gangi. Draga þarf bóluefni í sprautur og gera klárt fyrir ferðina. Svo þarf að pakka ofan í kassa og koma sér út í bílinn. Í dag var fyrsti dagurinn sem bíllinn hefur verið notaður. Hann hefur verið merktur sérstaklega af þessu tilefni og er eins og lítil bólusetningastöð á hjólum. 

„Nú, erum við bara að hefja þessa herferð að bjóða fólki bólusetningar sem hafa ekki haft tök á að koma í bólusetningar áður, reyna að ná til þeirra sem eru óbólusettir,“ segir Sigríður Jóhanna Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Og hvernig er fyrirkomulagið, kemur fólk hingað út í bíl til ykkar til að fá bólusetningu?

„Já, það getur gert það. En fyrirtæki eru búin að vera dugleg að bjóða okkur aðstöðu innanhúss,“ segir Sigríður.

Og hvað er á matseðlinum í dag, er það Pfizer eða Moderna?

„Það er Pfizer og Janssen sem ég tek með mér í þessa ferð,“ segir Sigríður.

Og þið ætluðuð að leggja að af stað í morgun en það breyttist?

„Já, það voru nú bara ófyrirséðar aðstæður í fyrirtækinu sem við ætluðum að heimsækja,“ segir Sigríður.

Allir komnir í sóttkví þar?

„Mér skilst það,“ segir Sigríður.

Talarðu mörg tungumál?

„Nei, ég fæ góða aðstoð í dag. Ég fæ túlk með mér. Við sjáum hvort við þurfum að leita á náðir fleiri. Svo er Google translate alltaf líka bara ágætt,“ segir Sigríður.

Fyrirtæki geta haft samband við heilsugæsluna og pantað heimsókn. 

„Og svo hefur kannski verið hringt í nokkra aðila líka. Það gengur bara mjög vel, mikil aðsókn,“ segir Sigríður.