Bjóða þrjá milljarða í húsnæði hjúkrunarheimilanna

25.11.2021 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Félagið Heilsuvernd ehf., sem tók við rekstri hjúkrunarheimilanna á Akureyri fyrr á árinu, vill kaupa fasteignirnar þar sem heimilin eru rekin. Byggingarnar eru í eigu Akureyrarbæjar og ríkisins. Tilboð fyrirtækisins hljóðar upp á þrjá milljarða og rennur út á morgun.

Tilboðið gildir til 16 á morgun

Í síðustu viku barst tilboð Teits Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Heilsuverndar, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags í eigu Heilsuverndar í húseignir við Vestursíðu 9 og Austurbyggð 17. Tilboðið hljóðaði upp á þrjá milljarða. Var það tekið til umræðu á fundi bæjarráðs þar ákveðið var að setja eignirnar í söluferli og óska eftir aðkomu ríkisins að því. Tilboð Heilsuverndar barst mánudaginn 15. nóvember, og gildir í rúma viku, þar til klukkan 16.00 á morgun, föstudag.

Sjá einnig: „Þið eruð gömul, þið eruð ekki arðsöm“

Vill að ríkið kaupi Akureyrarbæ út

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar segir bæinn hafa innt ríkið eftir því hvernig fara skuli með eignirnar nú þegar þriðji aðili hefur tekið við rekstrinum. Hún segir enga afstöðu hafa verið tekna til tilboðsins enda eigi bærinn ekki eignirnar einn. Af sömu ástæðu hafi eignirnar ekki verið auglýstar til sölu. Í skriflegu svari segir Halla að persónulega hugnist henni að ríkið kaupi Akureyrarbæ út og sjái þá um að leigja út húsnæðið og halda því við.