Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bað guð á hverju kvöldi að láta ekki móður sína deyja

Mynd: Kiljan / RÚV

Bað guð á hverju kvöldi að láta ekki móður sína deyja

25.11.2021 - 07:30

Höfundar

Ólafur Ragnar Grímsson segir frá uppvaxtarárum sínum og veikindum móður sinnar í nýútkominni bók. „Það var nokkur þraut að upplifa þennan veruleika á ný í þessum skrifum og horfast í augu við sjálfan mig, móður mína og pabba.“

Bókin heitir Rætur og þar lýsir Ólafur Ragnar æsku sinni á Vestfjörðum og í Reykjavík. Frásögnin birtir nýjar hliðar á forsetanum fyrrverandi, upphaflega átti hún að vera skrifuð til dætra hans en varð á endanum, eins og Ólafur lýsir því sjálfur, leit að honum sjálfum í skógi minninganna.

Móðir hans, Svanhildur Ólafsdóttir Hjartar, veiktist af berklum á unglingsaldri og glímdi við veikindin allt þar til hún lést, 51 árs að aldri. Í bókinni segir Ólafur frá því þegar hann var tekin frá henni og sendur til til dvalar á Þingeyri, hjá ömmu sinni og afa, þriggja ára gamall. 

„Ég sá hana lítið sem ekkert næstu sex árin og amma mín lætur mig biðja bæn á hverju kvöldi um að guð láti ekki móður mína deyja,“ segir hann í viðtali í Kiljunni á RÚV.

„Ég held að þjóðin hafi ákveðið að gleyma þessu hræðilega tímabili í sögu þjóðarinnar eftir að hægt var að lækna berklana. Berklarnir voru algengasta dánarorsökin og sjúklingarnir á Vífilsstöðum og Kristneshæli voru til dæmis á spítölum fjarri mannabyggð.“

Mynd með færslu

Tvöföld þögn

Þegar Ólafur fékk að kynnast móður sinni betur, eftir að hann flutti til Reykjavíkur, sá hann að berklarnir voru ekki það eina sem hrjáði hana. „Þegar ég kem suður með henni átta ég mig á því að öll þessi glíma hefur haft áhrif á sálarlífið, á andlega heilsu hennar. Þetta var eiginlega tvöföld þögn. Þögnin um berklana og þögnin um hina andlegu sjúkdóma.“

Samband þeirra varð vegna þessa aldrei mjög náið. „Það verður að játast að amma var kannski meira mín raunverulega móðir. Það var nokkur þraut að upplifa þennan veruleika á ný í þessum skrifum og horfast í augu við sjálfan mig, móður mína og pabba. Þetta var líka mikil þraut fyrir pabba, að vera einn á Ísafirði og konan fyrir sunnan árum saman. Þau sjást kannski ekki í eitt eða tvö ár og svo var ég, einkasonurinn, hjá afa og ömmu í Dýrafirði.“

Veröld bókanna bjargaði

Ólafur segir að dvöl hans á Þingeyri hafi þó reynst mikil gæfa, hann hefði orðið að allt öðrum manni ef ekki hefði verið fyrir hana. „Þótt ég ætti á hverju kvöldi að biðja guð að láta ekki móður mína deyja, þá var þetta þorp mér gleðigjafi. Þegar ég kom suður til Reykjavíkur og við fluttum á Óðinsgötuna, þá beið ég alltaf eftir að komast vestur á vorin.“

Í Reykjavík var hann einmana og einrænt barn. „Ég las allar bækurnar á barnabókadeild Borgarbókasafnsins, sem þá var í þessari flottu villu í Þingholtunum. Ég var einmana því ég kom úr þessu þorpi, þessum fallega firði þar sem við gátum verið alls staðar. Á Óðinsgötu var bara ókunnugt fólk í næstu húsum. Þó að Þingholtin á þessum tíma hafi að vissu leyti verið þorp, þá var það þorp sem var mér framandi.“

Hann fann sig því ekki í Reykjavík fyrr en hann fór í menntaskóla. „Það sem bjargaði mér var veröld bókanna og Borgarbókasafnið í Þingholtunum.“

Egill Helgason ræddi við Ólaf Ragnar Grímsson um bókina Rætur í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ólafur opinberar dagbækurnar: „Ekkert trúnaðarbrot“

Innlent

Ólafur og Samson keppast um ból Dorritar

Stjórnmál

50 ára ferli að ljúka