Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Augljóst að ekki sé öllum treystandi fyrir blóðmerum

25.11.2021 - 18:56
Mynd: Skjáskot / RÚV
Siðfræðingur segir augljóst að ekki öllum sem stunda blóðmerabúskap sé treystandi fyrir því. Sé of kostnaðarsamt að bæta eftirlitið þurfi samfélagið að íhuga hvort starfseminni sé ekki sjálfhætt.

Fagráð um velferð dýra vinnur nú að ályktun vegna meðferða hryssa sem sást á myndskeiði frá þýskum dýraverndarsamtökum. Blóð var tekið úr yfir fimm þúsund merum í fyrra.

„Mitt persónulega álit er það að við getum ekki litið svo á að þetta svokallaða blóðmerahald sé siðferðilega rangt, að sumu leyti svipar þetta til annars búfjárhalds. Blóðtakan hlýtur að teljast vera að einhverju leyti minna inngrip en að leiða dýr til slátrunar,“ segir Henry Alexander Henrysson siðfræðingur, sem er hluti af ráðinu en talar hér sem óháður sérfræðingur.

Tvö siðferðisleg álitamál takist á

En það þurfi að leita leiða til að dýr líði ekki þjáningar. Henry segir að augljóslega hafi verið brotið á hryssunum á myndskeiðinu. En er hægt að tryggja velferð dýranna í þessum aðstæðum? „Það er sem sagt mjög erfitt að sjálfsögðu. Mér skilst að það sé ekki útilokað, það er greinilega ekki gert á þessum myndskeiðum sem við sjáum.“

Henry segir að tvö siðferðisleg álitamál takist á, að verið sé að leggja of mikið á dýrin og tilefnið til blóðtökunnar sé ekki nægjanlegt sem togast á við það sjónarmið að dýrin væru jafnvel ekki til nema af því þau eru notuð í þessum tilgangi og það sé reynt að gera þetta á eins mannúðlegan hátt og hægt er.

Ábúendur á Lágafelli í Austur Landeyjum, þar sem hefur verið stunduð blóðtaka yfir 30 ár sendu frá sér yfirlýsingu í dag og segja myndbandið ógeðfellt. En misskilnings gæti um framkvæmd blóðtöku, hryssurnar séu dreifðar, básarnir séu þröngir til að dýrin slasi sig síður, böndin yfir hryssurnar séu þeim til varnar því ef hryssan prjóni geti hún rifið nálina úr sér. Á Lágafelli sé stjakað við dýrunum með plaströrum til að beina þeim rétta leið. Og dýralæknir fylgist með öllu saman. 

Verði að vera hægt að banna starfsemi þegar þarf

Eftirlit með starfseminni er á höndum Matvælastofnunar og dýralækna. „Á blaði virðist þetta vera öflugt eftirlit. Ég held það þurfi að finna aðrar leiðir til að bæta í þetta eftirlit, þegar það er augljóst að við getum ekki treyst öllum fyrir þessari starfsemi. Það eru alveg til leiðir til að tryggja að eftirlitið sé ítarlegra, þær geta verið kostnaðarsamar, og ef það stendur ekki undir sér held ég að samfélagið ætti að íhuga hvort það sé ekki bara sjálfhætt með svona starfsemi,“ segir hann.

„Það verður að vera til staðar sameiginlegur skilningur um það að mínu mati, að það sé hægt að banna einhverja starfsemi þegar það er ekki hægt að tryggja að mannúðlegum aðferðum sé beitt í starfseminni. Og kannski höfum við ekki verið nógu öflug í því í gegnum tíðina - kannski breytist það í framtíðinni, að sönnunarbyrðin færist yfir á þá sem er eru að halda dýrin en ekki eftirlitsaðilana.“